Grillað lambalæri og grafinn silungur. Ísbjörn á Hrauni í eftirrétt

Í upphafi sumars leituðu ísbirnir í matarkistu Skagans og það ætlum við að gera líka, sögðu þau Árni Egilsson og Þórdís Þórisdóttir á Sauðárkróki fyrir tveimur árum þegar þau voru matgæðingar Feykis. Eftirrétturinn er sérlega áhugaverður og græni Túborginn á að minna á hinn danska sérfræðing sem fluttur var inn ásamt ísbjarnabúrinu fræga.

 Á Skaga er mikið af vötnum og er einfalt að ná sér í vatnableikju sem hægt er að matreiða á ýmsa vegu, t.d. að grafa.  Bleikjan er flökuð og beinhreinsuð, síðan er gómsætu hunangi smurt yfir flökin og þar á eftir eru þau þakin graflaxblöndu frá Pottagöldrum.  Síðast en ekki síst er sett vel af dilli yfir og fatið með flökunum sett í plastpoka og geymt í ísskáp svona tvo til þrjá sólahringa.   Daginn áður en fiskurinn er tilbúinn er best að gera graflaxsósuna, en í henni er 1 dós sýrður rjómi og jafnmikið af mayonnaise, ca. 1 – 2 tsk. sterkt sinnep, góðan slurk af sætu sinnepi og síðan vel af hunangi.  Þessu öllu er hrært saman og smakkað til og bragðbætt ef þurfa þykir. Þá er slatta af dilli sett út í sósuna og hún aftur smökkuð til, ágætt getur verið að krydda hana með salti og pipar.

Því næst grillum við lambið sem alið er í Skaga-heiðinni.             1 stk. lambalæri (helst að taka það úr frosti nokkrum dögum fyrir matreiðslu), gott er að taka úr því lykilbeinið, krydda það með Kød & Grill kryddi frá Knorr og pipar a.m.k. degi fyrir matreiðsluna.  Grillið hitum við vel upp setjum síðan lærið öðru megin á grillið og slökkvum undir brennaranum sem er undir kjötinu.  Lærið þarf að vera rúma klukkustund á grillinu, en eins og alltaf er sagt í matreiðslubókum er gott að hafa kjöthitamæli og lambakjötið er tilbúið þegar mælirinn sýnir 62°C.

            Þá er komið að sósunni með kjötinu. Í henni er 1 dós sveppaostur 300 gr. og um  60 gr. rjómapiparostur, 1 teningur nautakraftur leystur upp í vatni og 1 peli rjómi, slatti af sveppum, olía, rifsberasulta, pipar og salt.  Í upphafi er olía sett í pott og nokkrir sveppir, látið krauma í nokkurn tíma, síðan er osturinn settur út í og bræddur, þá er krafturinn hrærður saman við og því næst rjóminn. Bætið sultunni  og sveppunum út í og smakkið til með salti og pipar.

            Í lokin er það ísbjarnar-sinfónían “Ísbjörn á Hrauni”. Tekin er til stór og góð desertskál, Hraun frá Góu er mulið í botninn, síðan er eftirlætis ísinn settur þar ofan á.  Næst er Æði frá Góu brytjað yfir og þar á eftir er berjum af Þverárfjalli sáldrað yfir og í lokin er sett dass af Tuborg grøn í ofanálag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir