Grikkinn Ioannis bætist í hóp Tindastólsmanna

Það styttist í að körfuboltinn fari að skoppa og nú í dag tilkynnti körfuknattleiksdeild Tindastóls um að samið hefði verið við hinn gríska Ioannis Agravanis um að leika með liðinu á komandi tímabili í Bónus-deildinni. „Agravanis er fjölhæfur framherji sem getur gert sitt lítið að hverju inn á vellinum. Það tók sinn tíma að finna leikmann með hans eiginleika og vonandi mun sú þolinmæði skila sér.“ segir Benedikt Guðmundsson þjálfari Stólanna í tilkynningu frá félaginu.

Ioannis, sem er fæddur 1998 og er 1,96 m á hæð, er fimmti erlendi leikmaðurinn sem skrifar undir samning við lið Tindastóls en áður höfðu þeir Drungilas, Geks, Basile og Doucoure samið um að spila með liði Tindastóls.

„Ég er mjög spenntur og stoltur af því að ganga til liðs við Tindastól“ segir Ioannis. „Ég hlakka mikið til að koma á Sauðárkrók og kynnast liðinu og aðdáendum liðsins“

Dagur formaður er að sama skapi fullur tilhlökkunar „Það er spennandi vetur framundan, bæði lið byrjuð að æfa af krafti og styttist í fyrstu æfingaleiki, það er því til mikils að hlakka til fyrir körfuboltaspennta Skagfirðinga og nærsveitunga“

Deildarkeppnin í körfunni hefst í byrjun október.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir