Grátkórinn fær stuðning frá bæjarstjórum Sjálfstæðisflokksins - Sigurður Pétursson, sagnfræðingur
Eitt sinn voru íslenskir útgerðarmenn svo háværir í kvörtunum sínum um hlutskipti sitt og sinnar atvinnugreinar að þeir fengu á sig nafngiftina Grátkórinn. Nú hefur grátkórinn verið endurvakinn, rétt fyrir kosningar, til að vara við tillögum Samfylkingar og að einhverju leyti einnig Vinstri grænna um réttlátara fiskveiðistjórnunarkerfi. Og ekki er nóg að útgerðarmenn sjálfir þenji bassann, heldur hafa þeir fengið helstu bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins í lið með sér til að syngja annan tenór. Og það er sama stefið: Það mun allt fara til fjandans, ef hinir vondu vinstri menn komast til valda og breyta kvótakerfinu.
Það segir sína sögu um stöðu Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum og tengsl hans við útgerðarmenn og kvótahafa í landinu að bæjarstjórar Vestmannaeyja, Snæfellssbæjar og Ísafjarðarbæjar sjá sig knúna til að láta munstra sig í grátkór öflugustu hagsmunaafla í landinu og kyrja þennan heimsendasöng til að koma í veg fyrir að breytingar verði gerðar á núverandi kvótakerfi, sem meirihluti landsmanna hefur árum saman talið óréttlátt og ósanngjarnt. Það var þá kannski ekki mismæli sem hraut af munni eins þingmanns flokksins á landsfundi Sjálfstæðismanna um daginn, þegar hann sagði að það þyrfti að tryggja yfirráð Sjálfstæðismanna á auðlindum hafsins?
Í grein bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins í Morgunblaðinu 18. apríl skreyta þeir sig með starfsheiti sínu, en ekki pólitískum uppruna, og gefa þannig í skyn að þeir tali fyrir hagsmunum íbúa í sínu bæjarfélagin, skulu þeir minntir á eftirfarandi:
- Samkvæmt úrskurði Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna brýtur núverandi kvótakerfi mannréttindi. Kerfið hamlar nýliðun í sjávarútvegi. Breytingar munu tryggja jöfnuð og mannréttindi.
- Allt tal um þjóðnýtingu er í besta falli blekking, en í versta falli fölsun: Ekki er hægt að þjóðnýta verðmæti, nema þau hafi áður verið óskoruð eign annars aðila. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða myndar aflahlutdeild ekki óafturkræfa eign.
- Innköllun veiðiheimilda í núverandi kvótakerfi á tuttugu árum er eðlileg og sanngjörn leið fyrir þá sem hafa haft ókeypis forgang að verðmætustu auðlind þjóðarinnar. Sáttaleið sem tryggir aðlögunartíma kvótahafa.
- Slæm staða sjávarútvegsfyrirtækja og veðsetning verðmæta er afleiðing tuttugu ára kvótakerfis og 18 ára stjórnar Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum, en kemur ekki réttlátum og eðlilegum umbótum við.
- Auðlindasjóður í höndum ríkisins og uppboð veiðiheimilda á opnum markaði mun leiða til heilbrigðara umhverfis og eðlilegrar samkeppni í sjávarútvegi.
- Reynsla og þekking einstaklinga og fyrirtækja mun njóta sín til fulls í nýju kerfi, en forréttindi, leiguliðaáþján og brask með óveiddan fisk munu leggjast af.
Spádómar þriggja bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins um fjöldagjaldþrot og atvinnuleysi í sjávarbyggðum í kjölfar breytinga á fiskveiðilöggjöfinni eru hjáróma rödd í kór þeirra útgerðarmanna sem notið hafa forréttinda í skjóli Sjálfstæðisflokksins. Ef fyrirtæki í sjávarútvegi eru komin að fótum fram eftir 25 ára kvótakerfi og forræði Sjálfstæðismanna, sannar það hversu núverandi kerfi er búið að leika sjávarbyggðir landsins og þjóðarbúið allt. Því er enn meiri nauðsyn að opna leið fyrir framtaksama og framsýna einstaklinga til að taka frumkvæði og leiða fiskveiðar og sjávarútveg þjóðarinnar til framtíðar. Holur hljómur þriggja bæjarstjóra Sjálfstæðisflokksins bætir ekki þann falska tón sem einkennir Grátkórinn mikla. Fjöregg þjóðarinnar skal ekki fært þeim á silfurfati eftir að þeir hafa glutrað því út úr höndunum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.