Gómsæti með ítölsku ívafi

Uppskriftirnar þeirra Lóu og Muggs eru með smá ítölsku ívafi en uppskriftirnar sendu þau Feyki á þorranum á því herrans ári 2007.

Forréttur

Fylltir sveppir

  • 12 stórir sveppir
  • 5-6 msk. ólífuolía
  • 1 stór saxaður laukur
  • 2-3 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 50 gr. beikon, saxað
  • 2 msk. söxuð steinselja
  • rifinn Parmesanostur
  • salt og pipar
  • steinselja til skrauts

Stilkarnir eru fjarlægðir úr sveppunum, saxaðir og steiktir í smá stund í olíu með lauknum og hvítlauknum. Beikoni, steinselju, osti, salti og pipar bætt saman við og látið malla smá stund. Sveppunum er raðað í eldfast mót og fyllir með blöndunni. Nokkrum dropum af olíu hellt yfir. Bakað í 190° heitum ofni í 25 mín. Berið fram heitt sem forrétt eða sem meðlæti með kjöti eða fiski.

Aðalréttur

Steik með “pizzaiola sósu”

  • 50 ml. ólífuolía
  • 2 hvítlauksrif, afhýdd
  • 4 nautasteikur (150g hver)
  • 400g tómatar, afhýddir, fræhreinsaðir og saxaðir
  • 1 msk. ferskt oregano, saxað
  • -eða 2 tsk. þurrkað oregano
  • salt og pipar.

Olían er hituð á steikarpönnu, með hvítlauksrifjunum við háan hita. Kjötið er snöggsteikt á báðum hliðum. Tómötunum er bætt á pönnuna og kryddað með salti og pipar. Hitinn er lækkaður. Oregano stráð yfir og pönnunni lokað að hluta.

Þegar kjötið er mátulega steikt er það tekið af pönnunni og haldið heitu. Hitinn er hækkaður að nýju og sósan látin sjóða niður um helming. Borið fram með klettasalati og niðurskornu rauðkáli.

Eftirréttur

Ávaxtasalat með “zabaglione” sósu

  • 1 askja jarðarber
  • 1-2 kiwi
  • 1 pera
  • 1 askja bláber
  • 1 msk. marsala.

Berin eru hreinsuð og jarða-berin skorin í fernt. Pera og kiwi afhýdd og sneidd. Ávextirnir settir í eldfast mót, eða hitaþolnar eftirréttaskálar og marsala víninu skvett yfir.

Eftirréttur

Zabaglione

  • 3 eggjarauður
  • 75g strásykur
  • 2 ½ msk. marsala
  • hrásykur

Setjið eggjarauður og sykur í hitaþolna skál og þeytið þar til blandan er nærri hvít og froðukennd. Bætið marsala út í og hræðið þar til blandan hefur samlagast vel. Setjið skálina nú yfir pott með sjóðandi heitu vatni helst án þess að skálin snerti vatnið.

Pískið stöðugt í blöndunni þar til hún hefur þykknað. Setjið blönduna yfir ávextina og stráið hrásykri yfir, Setjið undir heitt grill í 30 sek. eða brennið sykurinn með gasbrennara. Berið strax fram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir