Góður útisigur hjá Hvöt gegn Völsungi

Völsungur tapaði sínum fyrsta heimaleik síðan 20. september 2008 þegar að þeir fengu Hvöt frá Blönduósi í heimsókn á Húsavíkurvöll í gærkvöld. Kalt var í brekkunni og smá gola en aðstæður til að iðka knattspyrnu voru fremur góðar. Leikurinn fór vel af stað og bæði lið reyndu að spila fótbolta með léttu spili og að sækja hratt fram á við. Fyrsta korterið virtust heimamenn hættulegri en tókst aldrei að enda sínar sóknir almennilega á síðasta þriðjungnum.

Um miðbik fyrri hálfleiks fengu gestirnir besta færi hálfleiksins sem var sannkallað dauðafæri. Varnarleikur Völsunga brást illilega og Bjarni Pálmason kom á siglingunni upp hægra megin, lék þar á Aron Bjarka Jósepsson og kom boltanum fyrir markið þar sem að sóknarmaður gestanna var einn og óvaldaður og skaut en Steinþór Mar Auðunsson í marki heimamanna varði á stórkostlegan hátt.

Heimamenn virtust vankaðir og gestirnir gengu á lagið. Á 33. mínútu bar það árangur en þá fékk Mirnes Smajlovic boltann, lék inn í vítateig og varnarmenn Völsungs flykktust að honum án þess að sparka boltanum burt og Mirnes átti gott skot með vinstri fæti sem sveif upp í markhornið vinstra megin. 0-1 fyrir Hvöt.

Völsungar áttu máttlitlar tilraunir í hálfleiknum sem fólust aðallega í langskotum Hrannars Björns Steingrímssonar sem rötuðu ekki á rammann. 0-1 í hálfleik og ljóst að á brattann væri að sækja fyrir heimamenn.

Á 55. mínútu sluppu Hvatarmenn í gegn eftir skyndisókn og áttu skot utarlega úr teignum á nærstöngina sem að Steinþór varði í horn. Fyrsta alvöru færi seinni hálfleiksins og sennilega eitt af fáum utan markanna. Fimm mínútur liðu og svo kom mark. Hápressa Völsunga gekk þá ekki og upp vinstri kantinn hlupu tveir Hvatarmenn og léku á þá Völsunga sem báru að þeim til hindrunar. Falleg stungusending inn fyrir vörnina á Mirnes Smaljovic sem lék á Steinþór í markinu og skoraði á nærstöngina úr þröngu færi. 0-2 eftir 60. mínútur og ekkert útlit fyrir að heimamenn kæmust aftur inn í leikinn.

Stressaðir Völsungar fóru að reyna að gera hlutina alltof hratt og juku hraðann á leiknum. Menn voru mikið að drífa sig og mikið var um feilsendingar á bæði lið. Vonarglæta kviknaði þó fyrir Völsung á 80. mínútu þegar að Hrannar Björn tók aukaspyrnu utan af kanti inn í teig þar sem boltinn datt fyrir fæturna á varamanninum Friðriki Mar Kristjánssyni sem skaut að marki, boltinn hafði viðkomu í höfðinu á Jóni Hafsteini Jóhannssyni og speglaðist þaðan í markið. 1-2 og allt í einu spennandi lokamínútur framundan.

Nú virtist líf komið í heimamenn og þeir fóru að ógna miklu meir en áður án þess þó að komast í ákjósanlegt færi. Hrannar átti aðra aukaspyrnu sem að Aron Bjarki stökk manna hæst upp í við markteiginn, en samherji Arons stökk upp í bakið á honum og kom boltanum frá í leiðinni.

Á 93. mínútu dró svo aftur til tíðinda er hár bolti kom yfir varnarlínu heimamanna. Stefán Jón Sigurgeirsson komst fyrstur í knöttinn og hreinsaði í magann á samherja sínum Aroni og þaðan fór boltinn beint í fæturna á Trausta Eiríkssyni sem stóð einn og óvaldaður langt fyrir innan varnarlínuna og kláraði færið auðveldlega. Þar sem boltinn kom af Völsungi var að sjálfsögðu ekki um rangstæðu að ræða og þar var Trausti heppinn.

Leikurinn var síðan flautaður af og lokatölur því 1-3 fyrir Hvöt. Völsungar áttu mjög slakan leik í heildina litið. Hvatarmenn voru ekki endilega að spila sinn besta leik en heimamenn leyfðu þeim að líta ansi vel út í kvöld. Ágætis hraði var í leiknum þótt færin létu standa á sér en sanngjarn sigur Hvatar var staðreyndin í kvöld.

Heimild: www.fotbolti.net

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir