Góður sigur Stólanna á Skallagrími
Tindastóll fékk Skallagrím úr Borgarnesi í heimsókn í kvöld í 3. deildinni og var leikið við ágætar aðstæður á Króknum. Tindastóll var sterkara liðið og uppskar sanngjarnan sigur þrátt fyrir að Borgnesingar hafi verið inni í leiknum allt þar til í blálokin.
Tindastólsmenn spiluðu vel framan af leik og sköpuðu sér mörg ágæt færi sem liðið náði ekki að nýta. Markvörður Skallagríms átti nokkrar ágætar vörslur en hann var þó klaufi þegar Tindastóll loks komst yfir um miðjan fyrri hálfleik. Atli Arnarson fékk þá boltann eftir hornspyrnu og átti frekar laust skot í gegnum þvögu í teignum og nánast á mitt markið og einhvern veginn í netið. Sanngjörn staða og frekar efldust Stólarnir við þetta og Kristinn Aron átti nokkrar ágætar tilraunir en allt kom fyrir ekki. Skallagrímsmenn komust betur inn í leikinn síðustu mínútur fyrri hálfleiks og voru nálægt því að jafna metin.
Síðari hálfleikur var jafnari en sá fyrri og bæði lið hefðu með smá heppni geta skorað. Næst komust þó gestirnir sem náðu að skófla boltanum í þverslána og niður á línu eftir klafs í teignum. Siggi Donna skipti þremur ungum köppum inná þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum og áttu þeir allir þátt í öðru marki Stólanna sem kom skömmu fyrir leikslok. Gunnar Stefán náði að halda boltanum í spili með tæklingu, boltinn barst til Bjarna Smára sem átti fína sendingu á Guðna sem skoraði með ágætu skoti í fjærhornið. Í kjölfarið fékk einn leikmanna Skallagríms rautt spjald fyrir mótmæli. Lokastaðan 2-0 og Stólarnir búnir að tryggja sér sæti í úrslitakeppni 3. deildar þegar tveimur umferðum er enn ólokið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.