Góðar kartöfluuppskriftir

Nú þegar fólk ætti að vera búið að taka upp kartöflurnar er ekki úr vegi að koma með nokkrar góðar kartöfluuppskriftir. Eftirfarandi uppskriftir eru fengnar úr Litlu matreiðslubókinni.

Fylltar kartöflur með valhnetum og múskati

4 stórar bakaðar kartöflur
2-3 msk smjör
¼ bolli valhnetur (fínt saxaðar)
½ tsk múskat
Salt, pipar
1 eggjarauða
2 msk brauðrasp

Aðferð: Kartöflurnar eru skornar í tvennt og skafnar innan úr hýðinu (ekki skemma hýðið). Síðan er öllu hráefnunum blandað saman í hrærivél og hrært þar til maukið er samfellt og án kekkja. Maukið er þá sett í sprautupoka og sprautað ofan í hýðið, penslað með smjöri og bakað í ofni í 15 mín. eða þar til brúnirnar eru gylltar að lit. Þetta er gott meðlæti með öllum fiski og ljósu kjöti.

 

Ensk kartöflusúpa
200 g gulrætur (rifnar)
100 g laukur (smátt saxaður)
100 g rófur (rifnar)
200 g kartöflur (skornar í teninga)
200-250 g nautakjötsbiti af skanka (á beini)
1 l nautakjötssoð
Salt, pipar
40 g smjör
HP sósa (orginal)

Aðferð:
Laukurinn er mýktur í smjörinu, gulrótunum og rófunni bætt saman við ásamt soðinu og kjötbitanum. Soðið vel í 20 mín. eða þar til grænmetið er farið að maukast, þá er kartöflunum bætt út í og súpan soðin í aðrar 20 mín. Smakkið súpuna til með salti og pipar (ssumir setja 2-3 maukaða tómata saman við) og berið fram í súputarínu með nýbökuðu brauði og HP sósunni. Hver og einn bragðbætir súpuna með henni fyrir sig.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir