Góð mæting í lopapeysumessu í Goðdalakirkju
Í hinu ylhýra Sjónhorni mátti í síðustu viku finna auglýsingu um lopapeysumessu í Goðdalakirkju í hinum gamla Lýtingsstaðahreppi. „Komum í lopapeysum eða með þær. Hvaðan kemur munstrið? Veltum fyrir okkur munstrinu í lífinu,“ sagði í auglýsingu séra Döllu Þórðardóttur sóknarpresti. Feykir forvitnaðist örlítið um hvernig tókst til.
Myndir frá messunni mátti sjá á Facebook og hafði Feykir samband við Sólborgu S. Borgarsdóttur frá Goðdölum og forvitnaðist aðeins um messuna en þetta ku vera í fyrsta sinn sem lopapeysumessa er haldin í kirkjunni. Það lá auðvitað beint við að spyrja hvort ástæðan fyrir lopapeysumessu væri vegna kulda í kirkjunni en svo var víst ekki, lopapeysumessan kæmi til af góðu einu, sagði Sólborg. „Vangaveltur voru um mismunandi munstur og hvaðan þau væru fengin og hvort ef til vill væru einhver að finna úti í náttúrunni.“
Mæting var góð, fólk kom víða að til messu og flestir í lopapeysum. „Fyrir predikun var fólki boðið að standa upp og segja frá sinni peysu mynstri og ef einhver saga væri á bak við flíkina,“ segir Sólborg.
Lýtingar eru söngelskir og ekki dugði minna en tveir kórar sem sungu við messuna. Kirkjukórinn söng undir stjórn Tom Higgerson og sönghópurinn Vorvindar glaðir undir stjórn Friðriks Þórs Jónssonar. Fermingarbörn tóku þátt í messu. Messað er í Goðdalakirkju fjórum til fimm sinnum á ári en Sólborg giskar á að í sókninni séu á milli 60-70 manns.
Var beðið fyrir langlífi lopapeysunnar? „Auðvitað var það gert,“ segir Sólborg að lokum. Ekki er ólíklegt að lopapeysumessuþráðurinn verði tekinn upp að ári.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.