Góð afkoma KS

Aðalfundur KS verður haldin á morgun en í fréttatilkynningu frá félaginu kemur fram að heildartekjur Kaupfélags Skagfirðinga á árinu 2008 voru tæplega 19 milljarðar króna. Þá var hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var rúmlega 3,1 milljarður króna og hagnaður fyrir gengisbreytingu erlendra lána var tæpir 2 milljarðar króna en tap eftir reiknaða gengisbreytingu erlendra lána og skatta var 2,9 milljarðar króna.

Í fréttatilkynningunni segir; -Veltufé frá rekstri var rúmlega 3,5 milljarðar króna sem er veruleg aukning frá fyrra ári og það mesta sem félagið hefur skilað frá upphafi.

Nettóskuldir allra fyrirtækjanna í KS-samstæðunni voru samanlagt rúmlega 3 milljarðar króna í lok árs 2008 og höfðu minnkað frá fyrra ári.
Bókfært eigið fé félagsins í árslok 2008 var 10,5 milljarðar króna. Eiginfjárstaða félagsins er mjög traust og lausafjárstaðan sömuleiðis.
Starfsmenn Kaupfélags Skagfirðinga og dótturfélaga eru um 600 talsins. Stærstu dótturfélögin eru FISK Seafood og  Vörumiðlun sem KS á bæði að fullu, Fóðurblandan sem KS á 70% hlut í og Sláturhús KVH ehf. á Hvammstanga sem KS á helmingshlut í.
Kaupfélag Skagfirðinga mun fagna hinni góðu afkomu og bjóða öllum í héraðinu til veislu í tilefni 120 ára afmælis síns
En Kaupfélagið verður 120 ára á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl, og býður þá  öllum héraðsbúum og fleiri gestum til veislu í nýju 3.300 fermetra verkstæðis-húsnæði félagsins á Eyrinni á Sauðárkróki. Húsið verður formlega tekið í notkun við þetta tækifæri og sýnt gestum. Á dagskrá verður sitthvað til hátíðabrigða, meðal annars tónlistar-flutningur á skagfirska vísu.
Kaupfélag Skagfirðinga er öflugt og traust félag, eins og framangreindar upplýsingar um afkomu þess og stöðu sýna. Að sjálfsögðu er afar mikilvægt fyrir Skagafjarðarhérað og landið allt að eiga svo styrkar stoðir í atvinnulífinu, ekki síst á erfiðleikatímum í efnahagslífinu. Trúlega hefur fyrirtækið aldrei verið mikilvægara heimahéraði sínu en einmitt nú. Um kaupfélagið ríkir mikil og góð samstaða meðal héraðsbúa sem meðal annars hefur gert því kleift að stækka, eflast og dafna á allan hátt undanfarinn áratug. Það á því sannarlega vel við að fagna samtímis 120 ára afmæli Kaupfélags Skagfirðinga og sumarkomunni með héraðsveislu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir