Gítar og sópran í Hóladómkirkju
Nú eru sumartónleikaröðin í Hóladómkirkju rúmlega hálfnuð og enn á ný er boðið upp á frábæra listamenn, því sunnudaginn 1. ágúst 2010, kl. 14 munu Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópransöngkona og Hannes Guðrúnarson gítarleikari koma fram. Þau flytja meðal annars íslensk þjóðlög í útsetningu Eyþórs Þorlákssonar fyrir rödd og gítar, einnig þjóðlög í útsetningu Benjamins Britten auk tónlistar eftir John Dowland, Mozart og Mario Castelnuovo-Tedesco.
Ingibjörg Guðjónsdóttir, sópran, stundaði söngnám við Tónlistarskóla Garðabæjar hjá Snæbjörgu Snæbjarnardóttir og framhaldsnám við Indiana University í Bandaríkjunum. Einnig hefur hún notið leiðsagnar hinnar frægu sópransöngkonu Ileanu Cotrubas. Ingibjörg hefur haldið fjölda einsöngstónleika, tekið þátt í óperum, tónlistarhátíðum og verið einsöngvari með sinfóníuhljómsveitum, kammersveitum og kórum bæði hér á landi og erlendis. Undanfarin ár hefur hún verið iðin við flutning samtímatónlistar og frumflutt tónverk íslenskra tónskálda, m.a. með kammersveitinni Caput.
Ingibjörg hefur gefið út tvær geislaplötur, Óperuaríur (2005) með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Ó Ó Ingibjörg (2007) þar sem hún syngur íslensk sönglög í frumlegum búningi með bræðrum sínum, djasstónlistarmönnunum Óskari saxófónleikara og Ómari gítarleikara. Ingibjörg er stofnandi og stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar en einnig starfar hún sem söngkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónlistarskóla Álftaness.
Hannes Guðrúnarson lauk burtfararprófi frá Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar vorið 1993. Hann stundaði framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Bergen á árunum 1993-1997 og starfaði jafnframt sem kennari og tónlistarmaður í Vestur-Noregi á þeim árum. Hannes flutti til Akureyrar haustið 1997 og kenndi þar til ársins 2002 ásamt því að vera virkur tónlistarmaður. Hann lék einleikstónleika í Salnum í Kópavogi haustið 2003 og hlaut lofsamlega dóma fyrir. Árið eftir lék hann á kammertónleikum þar ásamt Elísabetu Waage o.fl. Hannes lék með Pamelu de Senzi þverflautuleikara á Isnord tónlistarhátíðinni í Borgarnesi 2005. Í nóvember 2006 kom Hannes fram á tónleikum í minningu Einars Kristjáns Einarssonar, gítarleikara.
Hannes og Ingibjörg komu fram saman á tónleikum TKTK haustið 2009.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.