Gísli á Uppsölum heimsækir Blönduós og aukasýning á Hvammstanga

Elfar Logi Hannesson í hlutverki Gísla á Uppsölum. Mynd: Kómedíuleikhúsið.
Elfar Logi Hannesson í hlutverki Gísla á Uppsölum. Mynd: Kómedíuleikhúsið.

Kómedíuleikhúsið sýnir hið áhrifamikla leikrit Gísli á Uppsölum á Blönduósi. Leikurinn var frumsýndur á söguslóðum í Selárdal fyrir mánuði síðan og hefur farið víða síðan við einstaklega góðar viðtökur.

Gísli á Uppsölum er einstakt leikverk um einstakan mann. Einn stærsti viðburður íslenskrar sjónvarpssögu er Stikluþáttur Ómars Ragnarssonar um einbúann Gísla Oktavíus Gíslason. Enn er Gísli landanum kær og hugleikinn. Hér er á ferðinni áhrifamikil sýning sem hefur hrifið áhorfendur líkt og saga söguhetjunnar. Leikari er Elfar Logi Hannesson sem er jafnframt höfundur ásamt leikstjóranum Þresti Leó Gunnarssyni. Höfundur tónlistar er Svavar Knútur.

Sýnt verður í Félagsheimilinu á Blönduósi miðvikudaginn 2. nóvember klukkan 20. Miðasala er þegar hafin og fer fram í síma 847-1852 milli 17 og 20. Miðaverð er 3.500.- krónur. Sýningin á Blönduósi er framkvæmd í góðri samvinnu við Leikfélag Blönduóss og Félagsheimilið á Blönduósi.

Eins og fram hefur komið á Feyki.is var uppselt á sýningu á Hvammstanga í kvöld en nú hefur verið bætt við aukasýningu þar. Verður fyrri sýningin kl. 19 og sú seinni kl. 21, í Selasetrinu.

Þetta hafa áhorfendur að segja um leikritið Gísla á Uppsölum:

„Mæli svo með þessari sýningu. Látið ekki Gísla á Uppsölum hlaupa frá ykkur.“

„Stórkostlegt í einu orði sagt!“

„Sennilega besta leiksýning sem ég hef farið á.“

„Þessi sýning kom við allan tilfinningaskalann.“

„Mæli hiklaust með sýningunni sem er allt frá því að vera afar sorgleg upp í bráðskemmtileg.“

„Merkileg og falleg sýning sem hreyfir við manni. Mæli með henni.“

 Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir