Gestirnir grænklæddu sóttu stigin tvö.
Á heimasíðu Tindastóls segir að Njarðvikingar hafi farið með bæði stigin suður eftir viðureign þeirra við Tindastól í körfinni í gærkvöld. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, en síðan sigu gestirnir frammúr í síðari hálfleik. Þeir náðu mest 18 stiga forskoti, en leikurinn endaði svo með ellefu stiga sigri þeirra, 82 - 93.
Tindastólsmegin byrjuðu þeir Óli, Flake, Rikki, Svavar og Ísak leikinn. Fyrir Njarðvík voru það Friðrik, Magnús, Sitton, Logi og Hjörtur. Leikurinn byrjaði af krafti og bæði lið voru að hitta vel, sérstaklega Njarðvíkingar. Þeirra fimm fyrstu körfur af sjö voru þriggja stiga körfur og náðu þeir að komast í smá forskot með þessari hittni. Hinu megin voru það Ísak og Flake sem drógu vagninn og þá sérstaklega Flake. Stólarnir náðu að jafna í 21 - 21, þá tóku gestirnir smá kipp sem nægði þeim til fjögurra stiga forskots eftir fyrsta fjórðung. Staðan 25 - 29. Flake kominn með 14 stig og Ísak 7. Hinu megin dreifðist stigaskorið betur, en þó var Maggi Gunn kominn með þrjá þrista og Hjörtur 9 stig.
Fyrstu tvö stig annars leikhluta voru Njarðvíkinga, en síðan kom góður sprettur Tindastóls sem skoruðu 10 - 0. Stólarnir komnir yfir 35 - 31. Njarðvíkingar svöruðu með fimm stigum í röð, en síðan kom þristur frá Rikka og rúmar fimm mínútur eftir. Í stöðunni 42 - 38 og fjórar mínútur eftir, hætti boltinn að vilja fara niður gegnum hringinn hjá heimamönnum. Hann snerist uppúr og dansaði á hringnum, en niður vildi hann ekki. Stólarnir skoruðu ekki meira það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og það nýttu Njarðvíkingar sér með því að skora 6 síðustu stig annars leikhluta og leiddu því ennþá með tveimur. Staðan í hálfleik var 42 - 44. Flake var enn heitur í upphafi annars leikhluta, en síðan slökknaði á honum. Hann var samt kominn með 21 stig í hálfleik. Helgi Rafn var sterkur í fráköstunum og búinn að rífa niður 8 stykki þegar hér var komið í sögu. Logi Gunnarsson vaknaði til lífs í þessum leikhluta og skoraði sín fyrstu fimm stig og tók fjögur fráköst að auki.
Þriðji leikhluti fór frekar rólega af stað. Eftir fimm mínútur var staðan 52 - 56. Þá fóru gestirnir að síga rólega framúr og juku forskotið smátt og smátt. Í stöðunni 60 - 67 börðust Helgi Rafn og Friðrik Stefáns um frákast, sem endaði þannig að dómarnir dæmdu viljandi olnbogaskot á Helga Rafn og ráku hann útúr húsi. Ekki virtist Friðrik vera alsaklaus, en slapp að þessu sinni. Njarðvíkingar fengu fjögur víti og boltann, því búið var að dæma villu á Tindastól augnabliki áður en þeim lenti saman. Friðrik fór á línuna og skoraði úr þremur af fjórum og síðan skoraði Maggi tveggja stiga körfu í kjölfarið og Njarðvíkingar allt í einu komnir með 12 stiga forskot, 60 - 72. Þessi munur hélst út leikhlutann og staðan að honum loknum var 64 - 76.
Byrjunin á fjórða leikhluta kláraði svo leikinn eiginlega, því Njarðvíkingar skoruðu tvær fyrstu körfurnar og þar af aðra með þriggja stiga skoti. Munurinn kominn uppí 17 stig og þann mun náðu heimamenn ekki að vinna upp að ráði. Lánleysi Tindastóls var nokkuð og virtust menn að hluta til búnir að gefast upp. Menn reyndu þó út leikinn og tveir þristar frá Helga Frey í lokin settu muninn niður í 11 stig, en lengra komust heimamenn ekki og niðurstaðan því nokkuð öruggur sigur gestanna frá Njarðvík, 82 - 93. Tindastólsliðið náði sér ekki á strik í síðari hálfleik og Flake til að mynda skoraði aðeins 4 stig í honum. Ísak, Svavar og Helgi Frey áttu þokkanlegan leik og Helgi Rafn átti mjög góðan fyrri hálfleik ásamt Flake. Hjá gestunum báru Magnús Gunnarsson og Friðrik Stefánsson af, Maggi með 25 stig og Friðrik með 15 stig og 17 fráköst. Einnig áttu Logi og Sitton ágætis leik. Hjörtur var sprækur í fyrri hálfleik, en sýndi minna í þeim síðari. Eftir leikinn er Njarðvík áfram í fimmta sæti, en nú með 18 stig, en Tindastóll er enn með 14 stig og hafa ekki unnið heimaleik síðan 14. nóvember og aðeins tvo leiki síðan þá , gegn Þór og FSu á útivelli.
Stigaskor Tindastóls: Flake 25, Ísak 20, Svavar 16, Helgi Freyr 10, Friðrik 6 og Helgi Rafn 5.
Hjá Njarðvík skoruðu: Magnús 25, Sitton 17, Friðrik 15, Hjörtur 14, Logi 13, Sævar 6, Elías 2 og Grétar 1.
Áhorfendur fjölmenntu í Síkið í kvöld og studdu sína menn af miklum krafti og gaman að sjá það líf sem hlaupið er í áhorfendur.
Texti: JS.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.