Gerði sig seka um vanhæfni, setti heilhveiti í staðinn fyrir hveiti í kleinuppskrfit
Sigurlaug Ingibjartsdóttir varð fyrir því óláni þegar hún var við bakstur í síðustu viku, að setja óvart heilhveiti í staðinn fyrir hveiti í uppskrift af kleinum sem hún var ætlaði að steikja. Sigurlaug vildi þó lítið gera úr atvikinu þegar Dreifarinn hafði samband við hana.
-Þetta var nú bara óheppni hjá mér, heilhveitið er í samskonar bauk og hveitið og ég fór bara baukavillt, sagði Sigurlaug. Hún sagði þetta hafa verið lítið magn og ekki haft stór áhrif á heildaruppskriftina þar sem hún náði að hreinsa heilhveitið að mestu úr.
En þú gerir þér grein fyrir því að þetta voru mistök Sigurlaug? –Já ég geri það.
Og finnst þér þú enga ábyrgð bera í þessu máli? –Nei mér finnst þetta nú vera það lítið að það þurfi nú ekki að gera stórmál úr því.
En ef þetta hefði ekki uppgötvast, þá hefðu kleinurnar verið allt öðruvísi? –Já það er alveg ljóst, en mér tókst að afstýra þessu á síðustu stundu.
Og heldur þú að fólkið sem hefði snætt kleinurnar hefði ekki orðið ósátt ef þú hefðir ekki náð að koma í veg fyrir þetta stórslys? –Jú kannski, þetta var nú bara fyrir húsbóndann og barnabörnin.
Þau hefðu þá orðið fyrir vonbrigðum með þig er það ekki, ef þetta hefði farið svona? –Ég veit það nú ekki, ég er ekkert viss um það.
En getur þú fullyrt að þetta komi aldrei fyrir aftur? –Nei, auðvitað getur maður ekkert fullyrt um það.
En finnst þér ekki heillaráð að hafa helvítis heilhveitið í öðrum bauk og ólíkum þeim sem hveitið er í? –Jú það má alveg skoða það, ég á nóg af baukum.
En þér finnst sem sagt að þetta sé ekkert stórmál? Nei mér finnst þetta vera stormur í vatnsglasi.
Dreifarinn lætur lesendum sínum um að meta hvort að Sigurlaug hafi þarna gert dýrkeypt mistök eða hvort ástæða sé fyrir hana að taka þessu svona léttvægt eins og raunin virðist vera.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.