Geggjuð kjötmarinering og marengsskál

Sunna Björk, Björgvin Skúli og Kristinn. MYND AÐSEND
Sunna Björk, Björgvin Skúli og Kristinn. MYND AÐSEND

Matgæðingar vikunnar í tbl 29 í fyrra voru Sunna Björk Atladóttir og Kristinn T. Björgvinsson en þau búa í Túnahverfinu á Króknum. Sunna Björk er 35 ára lögmaður og löggiltur fasteignasali að mennt ásamt því að vera eigandi Fasteignasölu Sauðárkróks. Kristinn er 44 ára, menntaður í húsasmíði og vinnur sjálfstætt við þá iðn. Þau eiga saman Björgvin Skúla Kristinsson sem er fjögurra ára. „Þegar við fáum fólk í mat er algjör snilld að henda í þessar
uppskriftir – einfalt og þægilegt,“ segir Sunna. 

AÐALRÉTTUR

Nautakjöt eða folaldakjöt í geggjaðri marineringu

Marinering:
    11/2 dl ólífuolía
    1 dl soyasósa
    1 lime (safinn)
    3 msk. púðursykur
    3-4 hvítlauksgeirar
    1 tsk. cummin
    1/2 tsk. chili flögur

Aðferð: Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél. Kjötið sett í marineringuna og látið standa í 1-2 tíma. Við notumst svo við Sous-vide til að elda kjötið og til að meta hversu langan tíma þarf er best að fara inn á síðuna https://www.laeknirinnieldhusinu.com/p/sousvide-hitastig.html. Kjötinu er svo skellt á sitt hvora hliðina á grillinu. Við bjóðum svo alltaf upp á ofnbakaðar kartöflur með salti, pipar, hvítlaukskryddi og Feykisosti yfir og ferskt salat með kjötinu.

EFTIRRÉTTUR

Marengsskál
    500-750 ml þeyttur rjómi
    2-3 Þristar
    2 Mars súkkulaði
    fersk jarðarber
    fersk bláber
    1 marengsbotn
    kókosbollur eftir smekk 

Aðferð: Okkur finnst best að þeyta rjómann, mylja marengsbotninn niður, skera súkkulaðið og berin niður í hæfilega litla bita og setja allt í skál og hræra saman með sleif. Skipta þessu upp og setja í fallegar desertskálar áður en þetta er borið fram. Gott að græja þetta 1-2 klst. áður en það á að bera eftirréttinn fram.

Verði ykkur að góðu!

Sunna og Kristinn skoruðu á Elísabetu Jónu Gunnarsdóttur að taka við næsta matgæðingi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir