Gefum íslenskunni séns!

Halla Signý.MYND AÐSEND
Halla Signý.MYND AÐSEND

Þegar tengdasonur, frá Kentucky, kom inn í fjölskylduna í byrjun Covid, flutti unga parið inn á heimili okkar hjóna í tvö ár. Við tókum honum fagnandi enda virkilega góður drengur. Hvað varðar tungumálið er það almennt ekki erfitt að koma frá enskumælandi landi hingað til lands, þar sem flestir tala ensku frá unga aldri. Á sama tíma er það oft hamlandi fyrir þann sem sest hér að og vill læra íslenskuna. Oft skortir tækifæri til að æfa sig að tala tungumálið okkar. En í því samhengi var hann heppnari en margur annar, það er að lenda inn á heimili með tilvonandi tengdapabba sínum sem talar bara íslensku. Þá talar hann Siggi minn bara hærra ef hann vill koma sínu til skila. Það var því ekkert val fyrir unga manninn að læra þetta einstaka mál sem okkar ylhýra er, og það gekk vel og hann er hér enn.

En svo ég snúi mér að efni greinarinnar þá vildi ég með henni vekja máls á ábyrgð samfélagsins við að hjálpa til við aðlögun innflytjenda inn í samfélagið. Við höfum verið svo lánsöm að fá hingað til landsins harðduglegt fólk sem finna má um allt land og í öllum byggðakjörnum. Fólk sem er tilbúið að leggja okkur lið við að viðhalda góðu samfélagi og hagkerfinu til framtíðar kynslóða. Það er staðreynd að stór hluti eða 87% innflytjenda eru á vinnumarkaði hér á landi og það er vel.

Vestfirskt verkefni

Háskólasetrið á Vestfjörðum hýsir verkefnið „Gefum íslensku séns“ sem er stofnað m.a. af Fræðslumiðstöð Vestfjarða og með Ólaf Guðstein Kristjánsson í fararbroddi. Síðan verkefnið var stofnað hafa sveitarfélög og fleiri aðilar komið að verkefninu. Haldin hafa verið námskeið og málþing sem vakið hafa athygli og nú er verkefnið að færast yfir á fleiri svæði.

Þetta verkefni sprettur upp af átaki sem sett var á laggirnar á Ísafirði. Markmiðið er að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að þeir sem læra málið, sama hvar á vegi þeir eru staddir, fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Átakið snýst því mikið til um vitundarvakningu, hvað felst í því að læra málið, hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku, að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri. Þátttakendur eru íbúar á svæðinu, hvort sem þeir eru íslenskir að uppruna eða innflytjendur á svæðinu. Hér taka allir þátt og tala saman.

Íslenskan merkasti menningararfurinn

Þegar við tökum á móti ferðamönnum leggjum við áherslu að sýna menningararf okkar og áhugaverða staði um land allt, söguna og náttúruna. Merkasti menningararfurinn er þó tungumálið okkar og við þurfum að lyfta því upp. Það hefur þróast líkt og náttúran í okkar fallega landi en fyrir okkur er tungumálið festan í þjóðinni og samnefnari. Því verðum við að vera opin fyrir því hvernig við getum opnað og boðið þeim sem flytja eða dvelja hér um lengri eða skemmri tíma til þess að starfa og lifa í okkar samfélagi.

Það er á okkar ábyrgð að tala og þjálfa íslenskuna og skipta ekki sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum við innflytjendur. Mikilvægt er að leyfa þeim sem það vilja að byggja undir sína kunnáttu. Þá verðum við að sjálfsögðu að bera virðingu fyrir því að okkar ylhýra er ekki auðlærð og setjast ekki í dómarasætið heldur sýna þolinmæði og vera fyrirmyndir.

Gefum íslenskunni séns!

Halla Signý Kristjánsdóttir 7.þingmaður Framsóknar- NV kjördæmis

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir