Gamli bærinn á Blönduósi verður aðdráttarafl ferðamanna

Pétur B. Arason sveitarstjóri Húnabyggðar og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir framkvæmdastjóri SSNV.MYND SSNV
Pétur B. Arason sveitarstjóri Húnabyggðar og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir framkvæmdastjóri SSNV.MYND SSNV

Á vef SSNV segir frá því að undirritaður hefur verið viðaukasamningur vegna verkefnisins Gamli bærinn á Blönduósi – aðdráttarafl ferðamanna, sem styrkt er á grundvelli sóknaráætlunar landshlutans fyrir hönd Húnabyggðar. Samningurinn er gerður með vísan í aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022–2036.

Markmið verkefnisins er að hanna sýn og leikmynd að endurgerð gamla bæjarins á Blönduósi, sem og að þróa sögulega leiðsögn sem styður við markvissa uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Verkefnið miðar að því að auka aðdráttarafl bæjarins, efla atvinnulíf og skapa ný störf í sveitarfélagi sem glímir við áskoranir í atvinnumálum.

Verkefnið skiptist í fjóra meginverkþætti:

  1. Öflun gagna um sögu gamla bæjarins

  2. Hönnunarvinna með þátttöku arkitekta

  3. Gerð söguleiðsagnar í snjallforriti (appi)

  4. Kynning og markaðssetning á niðurstöðum

Markmið viðaukasamningsins er jafnframt að færa heimamönnum aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna og tryggja tengingu á milli byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta.

Verkefnið er enn eitt skrefið í átt að sjálfbærri þróun og nýtingu menningararfs til að skapa spennandi framtíð fyrir samfélagið í Húnabyggð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir