„Gaman að eiga stefnumót við gamla tíma“

Sölvi Sveinsson fyrir utan uppeldisstöðvarnar, Sólvelli, á Skagfirðingabraut 15 Sauðárkróki. Ljósm./BÞ
Sölvi Sveinsson fyrir utan uppeldisstöðvarnar, Sólvelli, á Skagfirðingabraut 15 Sauðárkróki. Ljósm./BÞ

„Þetta byrjaði þannig að árið 1995 fór ég að gefa út pésa eða smákver með minningum sem ég sendi vinum mínum í staðinn fyrir jólakort. Ég hef haldið þeim sið síðan og mörg af þessum kverum eru með æskuminningum mínum af Króknum. Það sem ég gerði núna var að ég tók þessa pésa og er búinn að breyta þeim talsvert, stytta sumt og sumstaðar hef ég bætt heilmiklu við. Svo hef ég skrifað nokkra nýja þætti og tengt þetta allt saman í nýja heild,“ útskýrir Sölvi Sveinsson sem var að gefa út bókina Dagar handan við dægrin – Minningarmyndir í skuggsjá tímans. Í bókinni fjallar hann um minningar sínar frá uppvaxtarárunum á Króknum. Sölvi settist niður með blaðamanni Feykis og sagði frá tilurð bókarinnar.

Sölvi er fæddur á Sauðárkróki árið 1950, sonur Sveins Sölvasonar og Margrétar Kristinsdóttur, og er alinn upp á Skagfirðingabraut 15. Á heimilinu voru amma hans, Sigurlaug Jósafatsdóttir og tvær eldri systur, þær Sigurlaug og Herdís, en eldri bróðir og nafni Sölva lést úr botnlangabólgu áður en Sölvi fæddist, einungis fjögurra ára gamall.

Fyrstu minningar Sölva segir hann vera frá því í kringum 1955 til 1956 en yngstu minningarnar sem koma við sögu í bókinni eru frá því í kringum 1965, tvö ár til eða frá. „Þegar maður er að rifja upp svona gamla tíma þá get ég ekki rifjað þá upp í sögulegu samhengi. Það sem ég man best, eða þykist muna best, það er það sem bar frá hinu venjulega,“ segir Sölvi og í því samhengi rifjar hann upp atvik sem átti sér stað þegar hann var í barnaskóla.

„Stóru strákarnir hengdu mig upp á belti sem ég hafði fengið í jólagjöf. Þá kom húsvörðurinn og losaði mig úr prísundinni þegar ég var farinn að hágrenja og hékk þarna einn.“ Þessa minningu segir Sölvi vera gott dæmi um hvernig minnið getur verið síður en svo óbrigðult.

„Í minni mínu situr alveg fast að þetta hafi verið Ásgrímur Sveinsson skreðari, eins og hann var kallaður, sem var húsvörður þarna í skólanum. En svo sé ég í bókum núna að þetta er tóm þvæla, þetta hlýtur að hafa verið allt annar maður því Ásgrímur var ekki byrjaður þegar þetta gerðist. En þannig man ég þetta.“

Ítarlegt viðtal við Sölva er í Feyki sem kom út í dag

Í tilefni af útgáfu bókarinnar verður haldið útgáfuteiti á Kaffi Krók nk. laugardag frá kl. 14-16. Þar verður hægt að rifja upp þessar gömlu góðu stundir með Sölva, kynning verður á bókinni og upplestur. Þar verður einnig hægt að festa kaup á eintaki.  

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir