Gagnrýna frestun á útboði trygginga sveitarfélagsins

Á fundi byggðaráðs svf. Skagafjarðar í gær voru lögð fram bréf frá tryggingafélögunum Sjóvá-Almennra og Tryggingamiðstöðinni þar sem óskað er eftir skýringum og rökstuðningi fyrir ákvörðun ráðsins að afturkalla ákvörðun fyrri sveitarstjórnar að segja upp vátryggingasamningi við Vátryggingafélag Íslands.

Fyrri sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 11. mars s.l. að segja upp samkomulagi við VÍS um vátryggingar sveitarfélagsins sem verið hefur í gildi frá 3. janúar 2006 og bjóða tryggingarnar út að nýju. Var sveitarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs falið að undirbúa nýtt útboð trygginga fyrir sveitarfélagið en ný sveitarstjórn ákvað að fresta því í óákveðinn tíma. Telur byggðarráð eðlilegt að ný sveitarstjórn fái umþóttunartíma til að meta og fara yfir vátryggingar sveitarfélagsins í heild sinni. Var það því samþykkt samhljóða á 522. fundi byggðarráðs þann 7. júlí sl. að endurnýja vátryggingasamning sveitarfélagsins við VÍS um eitt ár. Áður en kemur að uppsögn þess samnings samkvæmt ákvæðum samningsins mun byggðarráð taka málið til skoðunar að nýju.

Sigurjón Þórðarson og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir létu bóka að þau telji eðlilegt og hagkvæmt að bjóða út tryggingapakka sveitarfélagins eins og ráð var fyrir gert, enda liggi engin gögn fyrir í málinu sem benda til þess að skynsamlegt sé að fresta útboði auk þess sem  Sigurjón óskaði bókað að hann telji svör byggðarráðs vegna málsins algerlega ófullnægjandi og upplýsa ekki að neinu ákvörðun meirihlutans að bjóða ekki út tryggingarnar eins og ráð var fyrir gert.

„Ég býð auðvitað spenntur eftir þeim svörum sem boðuð voru í afgreiðslu byggðarráðs á þessu erindi og undrast mjög þá u-beygju sem var tekin þegar því er frestað að bjóða út tryggingar sveitarfélagsins,“ segir Karl Jónsson í samtali við Feyki.

„Vátryggingar eru sá kostnaðarliður sem sveitarfélög eru hvað duglegust við að bjóða út til þess að tryggja að þau hafi ávallt bestu kjörin á sínum tryggingum og ég held að það hafi komið í ljós í undanförnum útboðum meðal sveitarfélaga að það séu rétt vinnubrögð.  Þetta snýst um krónur og aura og sem besta nýtingu skattpeningum sveitarfélagsins og gagnsæja stjórnsýslu. Mér finnst þessi ákvörðun í raun kalla á fleiri spurningar en svör og hlakka mikið til að fá umrætt bréf frá sveitarstjóra þar sem vonandi nánari grein verður gerð fyrir ákvörðun Byggðaráðs“ segir Karl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir