Gæran hefst í kvöld
Tónlistarhátíðin Gæran hefst á Sauðárkróki í kvöld með Sólóistakvöldi á Hótel Mælifelli en Jón Jónsson mun loka því kvöldi, eftir að fjórir aðrir tónlistarmenn hafa komið fram. Á morgun föstudag verður svo barnaskemmtun með Páli Óskari á Mælifelli klukkan 17 og hinir eiginlegu Gærutónleikar verða í húsakynnum Loðskinns föstudags- og laugardagskvöld.
Þegar blaðamaður Feykis leit inn hjá Loðskinn upp úr hádegi í dag voru þar margar vinnufúsar hendur að störfum. „Hér er allt búið að vera á fullu alla vikuna,“ sagði Ásdís Þórhallsdóttir, sem er framkvæmdastjóri hátíðarinnar í ár, ásamt Adam Smára Hermannssyni. Byrjað var að tíma salinn, sem innihélt 480 stór bretti af Gærum, á mánudagsmorgun og var það níu tíma verk. Að því loknu var farið í þrif á salnum og síðan uppsetningu sviðs, ljósa- og tækjabúnaðar.
„Svo erum við að fara inn í þriggja daga tónlistarskemmtun sem byrjar á Mælifelli í kvöld klukkan átta. Þar eru fimm sólóistar og svo verða átta atriði hvort kvöld hérna í Loðskinni,“ segja þau Adam Smári og Ásdís.
Þau vilja ennfremur hvetja börnin til að fjölmenn á Mælifell á morgun. „Þar er frítt sjóv með Páli Óskari og hægt að láta taka af sér selfí með honum. Svo er aldrei að vita nema við komum með einhvern glaðning þar inn líka. Páll Óskar er að gera þrjú gigg á einum degi, og eins og hann sagði sjálfur er betra að vera úthvíldur,“ segir Adam Smári.
Hemúllinn kynnir hátíðarinnar
Þeir sem fram koma á Gærunni í ár eru Aron Óskars, Rythmatik, Kvika, Páll Óskar, Ottoman, Cantalgen Funeral, Blakkát og Hlynur Ben&Upplifun á föstudagskvöldinu. Inferno, LOTV (Lily of The Valey), Aron Hannes, Svenni Þór, Ká-Aká, Vio-band, Mosi Musik og Nykur koma svo fram á laugardagskvöldinu. „Svo ætlar Hemúllinn að vera með okkur alla helgina, hann hitar upp á sólóistakvöldinu og verður svo kynnir alla helgina, það er frábært að fá hann aftur í lið með okkur,“ segir Ásdís.
Miðasala á Gæruna er í Blóma- og gjafabúðinni á Sauðárkróki og á tix.is. Miðar verða seldir á forsöluverði til klukkan 18 á morgun og kosta þá 6.900 krónur. Miðasala verður einnig við dyrnar og þar kostar miðinn 7.900 krónur. „Þetta er gjöf en ekki gjald fyrir þriggja daga tónlistarhátíð,“ segja þau Adam Smári og Ásdís.
Miðarnir gilda á alla viðburði hátíðarinnar. Allar upplýsingar er að finna á fésbókarviðburði hátíðarinnar. Starfsmannafélög og aðrir hópar geta haft samband við Ásdísi í síma 771 3435 og fengið hópafslátt af miðaverði.
„Hér er allt að smella. Við erum komin lengra í uppsetningu en á sama tíma í fyrra og það stefnir allt í stærri og flottari hátíð. Við erum með fullt af flottum sjálfboðaliðum og stuðnings- og styrktaraðilum og erum þeim mjög þakklát,“ sögðu Adam Smári og Ásdís, framkvæmdastjórar hátíðarinnar að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.