Fyrstu Íslandsmeistarar Tindastóls í badminton - Íþróttagarpar Feykis
Á Íslandsmeistaramóti unglinga í badminton, sem fram fór á Akranesi í maí, sendi badmintondeild Tindastóls í fyrsta sinn keppendur á slíkt mót, systurnar Júlíu Marín, sem spilar í U11 og Emmu Katrínu í U13 og náðu þær frábærum árangri. Báðar komust þær í úrslit í öllum greinum sem þær tóku þátt í og enduðu sem Íslandsmeistarar í tvíliðaleik í sínum flokkum og þar með fyrstu tveir Íslandsmeistaratitlar til Tindastóls í þessari vinsælu íþrótt.
Júlía Marín og Emma Katrín eru Helgadætur en faðir þeirra, Helgi Jóhannesson, er landsliðsþjálfari í badminton og aðalhvatamaður að stofnun badmintondeildar Tindastóls. Móðir stúlknanna er Króksarinn Freyja Rut Emilsdóttir. Feykir ákvað að hafa Íþróttagarpinn tvöfaldan að þessu sinni og byrjum við á svörum Júlíu, sem er af árgangi 2011 og þar með þremur árum yngri en Emma Katrín, sem fædd er 2008. Þær systur áttu sín fyrstu á í Reykjavík en fluttu á Krókinn fyrir fáum misserum.
Júlía Marín
Myndi vilja spila við besta vin sinn
Íþróttagrein: -Badminton, körfubolti, fótbolti og golf.
Íþróttafélag/félög: -Tindastóll.
Helstu íþróttaafrek: -Að verða Íslandsmeistari.
Skemmtilegasta augnablikið: -Þegar ég fékk bikarinn.
Neyðarlegasta atvikið: -Þegar þjálfarinn (pabbi) segir mér að gera það sem ég er að gera….
Einhver sérviska eða hjátrú? -Mér finnst best að spila með spaðann hennar Emmu systur minnar.
Uppáhalds íþróttamaður? -Carolina Marin, hún er frá Spáni og er Evrópu-, Heims- og Ólympíumeistari í einliðaleik kvenna í badminton. Einu sinni kom hún til Íslands að keppa, en þá var ég bara fjögurra ára svo ég man því miður ekki eftir því.
Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Ég myndi vilja spila badminton við Inga Þór Gunnarsson, hann er besti vinur minn og er nýfluttur í Borgarnes.
Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Það væri bara ótrúlega skemmtilegt og við myndum springa úr hlátri og fíflast geggjað mikið, eins og við gerum alltaf.
Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Mér finnst mjög gaman að baka og einu sinni gerði ég geggjað flotta marengstertu sem var mjög góð.
Lífsmottó: -Hafðu gaman.
Helsta fyrirmynd í lífinu: Emma systir mín af því hún er best í öllu.
Hvað er verið að gera þessa dagana? -Ég er í SumarTím í frjálsum, körfubolta, golfi og fótbolta. Svo fer ég líka næstum á hverjum degi í sund og í vinnuna til mömmu.
Hvað er framundan? -Steinullarmótið í fótbolta og líka Símamótið í fótbolta.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? -Það geta allir allt, þú þarft bara að trúa á að það gerist.
Emma Katrín
Það er ekkert sem þú ekki getur gert
Íþróttagrein: -Badminton og körfubolti. En ég hef líka æft fimleika, ballett, fótbolta og golf.
Íþróttafélag/félög: -Tindastóll.
Helstu íþróttaafrek: -Ég á samtals fjóra Íslandsmeistaratitla í badminton, ég held mér finnist Íslandsmeistaratitillinn í einliðaleik 2018 vera stærstur.
Skemmtilegasta augnablikið: -Ekki beint augnablik en sumarið 2019 fór ég í æfingabúðir á Grænlandi, það var mjög skemmtilegt.
Neyðarlegasta atvikið: -Það kemur fyrir alla en það er alltaf vandræðalegt að slá vindhögg í leik.
Einhver sérviska eða hjátrú? -Ég reima bara tvöfalda slaufu á vinstri, veit ekki af hverju…
Uppáhalds íþróttamaður? -Viktor Axelsen og Kento Momota. Viktor er danskur badmintonspilari, hann er t.d. bronsverðlaunahafi frá Ólympíuleikunum 2016. Momota er núverandi heimsmeistari í einliðaleik karla í badminton.
Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Ég myndi skora á mömmu í badminton. Við höfum reyndar oft keppt og mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að vinna hana.
Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? …og Emma skorar! Og annað stig fyrir Emmu! Glæsilegt hjá Emmu!
Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Mér fannst gaman þegar ég var valin á Barnaþingið og var stolt af sjálfri mér að þora að segja mína skoðun þar. Ég var líka stolt af sjálfri mér þegar ég komst í úrslit Stóru upplestrarkeppninnar.
Lífsmottó: -Það er ekkert sem þú ekki getur gert.
Helsta fyrirmynd í lífinu: Pabbi, af því hann gefst aldrei upp og hefur alltaf trú á því að ég geti unnið alla leiki og að ég geti gert allt.
Hvað er verið að gera þessa dagana? -Ég er nýkomin heim úr Úrvalsbúðum KKÍ og er bara að að njóta sumarfrísins áður en ég fer í unglingavinnuna og að passa bræður mína meðan leikskólinn er í sumarfríi og mamma og pabbi að vinna.
Hvað er framundan? -Unglingavinnan og 8. bekkur og bara þrotlausar æfingar í badminton og körfubolta.
Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri? -Til að hlutirnir gerist þarftu að láta þá gerast.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.