Fyrsti sigur Stólastúlkna í efstu deild á þessari öld kom í upprúllun á Stjörnunni
Kvennalið Tindastóls í körfunni tók á móti liði Stjörnunnar í Síkinu í kvöld í annari umferð Bónus deildarinnar. Margir óttuðust erfiðan leik gegn spútnikliði síðasta tímabils, Stjörnunni, sem hafði lagt Íslandsmeistara Keflavíkur í fyrstu umferð á meðan lið Tindastóls steinlá í sveiflukenndum leik gegn Aþenu. En það er ekki á vísan að róa þegar kemur að íþróttum og í kvöld hefði mátt halda að það hefði verið lið Tindastóls, ekki Stjörnunnar, sem stóð sig með glæsibrag í efstu deild á síðasta tímabili. Stólastúlkur leiddu frá fyrstu til síðustu mínútu í leiknum og unnu öruggan 26 stiga sigur, 103-77.
Það var ljóst strax í byrjun leiks að Stjörnustúlkur voru ekki á eldi því þær gerðu aðeins eina körfu á fyrstu sex mínútum leiksins og staðan og heimaliðið leiddi 16-2. Gestirnir komu þó til baka og höfðu minnkað muninn í sex stig fyrir lok fyrsta leikhluta, 20-14. Nokkuð jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en aldrei náðu gestirnir að komast nær Stólastúlkum en sex stigum, munurinn jafnan þetta sex til níu stig. Staðan 47-39 í hálfleik.
Einhverjir hefðu reiknað með því að Ólafur Jónas og hans teymi næði að stilla sitt lið af í hálfleik og Garðbæingar kæmu dýrvitlausir út í síðari hálfleikinn. Það var hins vegar sama hvað þær reyndu, munurinn varð aldrei minni en sex stig og upp úr miðjum leikhlutanum stigu Stólastúlkur upp og gerðu nánast út um leikinn. Í stöðunni 52-46 náðu stelpurnar 12-0 kafla og munurinn skyndilega orðinn átján stig. Staðan 81-60 fyrir lokafjórðunginn en í honum voru gestirnir aldrei nálægt því að búa til endurkomu. Fyrsti sigur kvennaliðs Tindastóls í efstu deild á þessari öld því staðreynd - og kannski fyrr en nokkurn hafði órað fyrir.
Randi Brown var stigahæst í liði Tindastóls með 32 stig og hún hirti átta fráköst. Oumoul Sarr skilaði 29 stigum og átta fráköstum, Ewa Falenzcyk gerði 23 stig, Emma Katrín tíu, Brynja Líf gerði átta stig og tók átta fráköst, Paula Rojas gerði sjö stig og Inga Sólveig sex. Kolbrún María og Diljá Ögn voru nánast einar um að sýna lit í liði gestanna og þær einu sem náðu meira en tíu framlagspunktum.
Nú er bara að styðja vel við bakið á Stólastúlkum því það er næsta víst að liðið er til alls líklegt og góður stuðningur er okkar sjötti maður eins og dæmin sanna.
Gott leikskipulag vel framkvæmt inni á vellinum
„Við undirbjuggum okkur vel fyrir leikinn,“ sagði Israel Martin þegar Feykir spurði hann að leik loknum hvert planið hefði verið fyrir leikinn. „Stundum virkar það og stundum ekki en við Hlynur stóðum okkur nokkuð vel í að setja upp leikskipulag fyrir leikinn. Við þekktum styrkleika þeirra og settum upp sérstakar varnarreglur gegm lykilleikmönnum þeirra. Kolbrún stóð sig vel, hún er góður leikmaður en við náðum að stoppa hina leikmenn Stjörnunnar.“
Hver var munurinn á liði Tindastóls í kvöld og í leiknum gegn Aþenu sem tapaðist með 20 stigum? „Í grundvallaratriðum erum við með einn leikstjórnanda á gólfinu mest allan leikinn. Paula, sem er fingurbrotin, ákvað að spila í kvöld og Brynja líka en hún náði ekkert að æfa í síðustu viku. Þær stóðu sig báðair ótrúlega vel þó svo við sjáum það ekki á stigatöflunni. Hlutverk leikmanna í þessu liði eru mjög skýr í augnablikinu.“
Tindastóll leiddi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Heldurðu að Stjarnan hafi vanmetið lið Tindastóls? „Nei, ég held ekki. Stjarnan er gott lið með góða þjálfara. Ég held að leikmenn okkar ættu að eiga allan heiðurinn í kvöld. Þeir framkvæmdu leikskipulagið mjög vel og lásu vel í aðstæður í leiknum.“
Israel segir leikmannahópinn fullskipaðan en enn eru þó meiðsli og veikindi að herja á hópinn. „Við erum ánægðir með alla leikmennina sem eru með í þessu verkefni af heilum hug. Við þurfum bara að ná þeim aftur heilbrigðum og halda áfram leið okkar – að bæta leik okkar með æfingum.“
Hvernig líst þér á deildina, nú strax hafa öll liðin sem komu upp úr 1. deildinni unnið leik. Eiga þessi lið eftir að koma á óvart í vetur? „Það er of snemmt að hafa ígrundaða skoðun á deildinni. Ég held að lið Tindastóls verði að halda áfram ferðalagi okkari og verja heimavöllinn. Ef stelpurnar haldast heilbrigðar og í fínu formi eigum við eftir að gera vel,“ segir þjálfarinn að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.