Fyrri sýningardagur Lífsins gæða og gleði 2014 að baki
Það hefur heldur betur verið bjart upplitið á Skagfirðingum í dag. Atvinnulífs-, menningar- og mannlífssýningin Lífsins gæði og gleði hófst kl. 10 í morgun og var aðsóknin ekki til að nöldra yfir, stanslaus straumur af fólki sem var komið til að kynna sér skagfirsk fyrirtæki og framleiðslu en ekki síður að hittast, eiga spjall og njóta þess sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða.
Sæluvikan er ekki formlega byrjuð en það hefur aldrei þvælst fyrir Skagfirðingum að forsælast duglega. Það voru því listsýningar í gangi í dag og í Reiðhöllinni Svaðastöðum var sýning í sambandi við Tekið til kostanna og í kvöld er stórsýningin sjálf í höllinni. Þá var fermt á Króknum í dag og því standandi veislur um allan bæ.
Lífsins gæði og gleði heldur áfram á morgun en sýningin verður opin á milli 10-16 og meðal annars verður Sæluvikan sett á sviðinu í íþróttahúsinu kl. 14:00.
Feykisfólk var að sjálfsögðu í íþróttahúsinu í dag og ljósmyndari tók nokkrar myndir sem má sjá hér að neðan. Þá má geta þess að N4 er sömuleiðis á staðnum og sendir út þætti og viðtöl tengd sýningunni alla helgina.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.