Fyllt lambalæri á grillið

Er ekki tilvalið að dusta rykið af grillinu um helgina og skella íslensku lambalæri á það og snæða með öllu sem því tilheyrir. Hér er uppskrift sem klikkar ekki en þá er notuð fylling úr fetaosti, sólþurrkuðum tómötum, furuhnetum, pestói og kryddjurtum. Best er að úrbeina lærið þannig að leggjarbeinið sé skilið eftir og lærið haldi alveg lögun.

Hráefni

1 lambalæri, um 2.2 kg

100 g fetaostur, grófmulinn

10-12 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir

3 msk. furuhnetur

3 msk. rautt pestó

2-3 hvítlauksgeirar, saxaðir smátt

10-15 basilíkublöð, söxuð

1 tsk. ferskt rósmarín, saxað (má sleppa)

nýmalaður pipar

salt

 

Úrbeinið lærið að hluta en skiljið leggjarbeinið eftir. Blandið saman fetaosti, tómötum, furuhnetum, pestói, hvítlauk, kryddjurtum, pipar og dálitlu salti í skál og fyllið holrúmið með blöndunni. Lokið vel fyrir með grillpinnum (ef notaðir eru tréteinar er best að brjóta það sem út úr stendur af áður en lambið fer á grillið svo þeir brenni ekki). Kryddið lærið vel að utan með pipar og salti. Hitið grillið vel og hafið það lokað á meðan. Slökkvið síðan á öðrum/einum brennaranum. Ef notað er kolagrill, ýtið þá kolunum til hliðar í miðjunni og setjið álbakka þar. Leggið lærið á grindina þar sem enginn eldur er undir, lokið grillinu og grillið lærið við meðalhita í um eina klukkustund, eða eftir smekk. Grilltíminn fer líka eftir því hve mikill hiti er á grillinu og hann lengist ef hvasst er í veðri eða ef það er opnað oft, þá verður hitatapið svo mikið. Snúið lærinu þó einu sinni eða tvisvar ef grillið er aðeins með tvo brennara og hitinn því ekki jafn. Takið lærið af grillinu þegar það er tilbúið og látið það standa í a.m.k. 15-20 mínútur áður en það er skorið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir