Fullt út úr dyrum hjá KS
Mikill mannfjöldi kom í nýju verkstæðisbyggingu KS á Eyri í gær til að heiðra afmælisbarn dagsins í Skagafirði, Kaupfélagi Skagfirðinga.
KS hafði boðið öllum Skagfirðingum til fagnaðar í þessi nýju og glæsilegu húsakynni og gestirnir létu ekki á sér standa. Fullt var út úr dyrum í orðsins fyllstu merkingu. Var tekið á það ráð að opna stóru verkstæðisdyrnar svo þeir sem ekki komust inn heyrðu það sem fram fór inni.
Haldnar voru ræður og kveðjur bornar afmælisbarninu, flutt fjölbreytt tónlistaratriði m.a. frumflutt lag Geirmundar Valtýssonar við texta Guðbrands Þorkels Guðbrandssonar þar sem fjallað um Kaupfélagið. Kaupfélagsstjóri veitti í tilefni dagsins 12 milljóna króna styrk til Heilbrigðisstofnunarinnar til kaupa á tækjum. Á eftir formlegri dagskrá var boðið upp á afmælistertu og drykk. Fólk skoðaði sig um í hinu nýja húsi og er óhætt að segja að nýja húsið sem á að hýsa bíla-,véla, rafmagns- og tölvuverkstæði ásamt verslun og þjónustu ýmiskonar er öll hin glæsilegasta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.