Frumvarp til laga um Hálendisþjóðgarð heillar ekki byggðarráð Skagafjarðar

Afmörkun miðhálendisins miðast við línu dregna á milli heimalanda og afrétta en sem var aðlöguð í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila við vinnslu svæðisskipulags miðhálendisins sem tók gildi árið 1999. Mynd úr lokaskýrslu nefndar um forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.
Afmörkun miðhálendisins miðast við línu dregna á milli heimalanda og afrétta en sem var aðlöguð í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila við vinnslu svæðisskipulags miðhálendisins sem tók gildi árið 1999. Mynd úr lokaskýrslu nefndar um forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands.

Byggðarráð Skagafjarðar leggst gegn samþykkt frumvarps til laga um Hálendisþjóðgarð en tölvupóstur frá nefndasviði Alþingis var tekinn fyrir á síðasta fundi ráðsins þar um en umsagnarfrestur er til 1. febrúar nk. Um afstöðu sveitarfélagsins er vísað til fyrri athugasemda sveitarfélagsins vegna málsins, síðast með sameiginlegri umsögn fjögurra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, við frumvarpsdrögin í janúar 2020.

Í fundargerð ráðsins frá síðasta miðvikudegi segir að frumvarpið geri fyrr ráð fyrir stofnun þjóðgarðs án samþykkis hlutaðeigandi sveitarfélaga. „Tillögur um afmörkun þjóðgarðs hvíla ekki á sérstökum röksemdum um náttúrufar heldur birtast sem krafa um yfirráð á svæðum þar sem þegar er gætt að hagsmunum náttúruverndar með Landskipulagi samþykktu af Alþingi, aðalskipulagi, eigandastefnu forsætisráðuneytis um þjóðlendur o.fl. 
Í undirbúningi málsins hefur ekki verið hugað að kostum núverandi umsjónar með þjóðlendum, sem liggur í raun hjá Alþingi, forsætisráðuneyti og sveitarfélögum.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fylgja eftir afstöðu ráðsins til málsins við Alþingi og samþykkir fyrirliggjandi drög að umsögn um málið, þar sem fram kemur umfjöllun um nokkur meginatriði, auk fyrri athugsemda við málið,“ segir í fundargerðinni.

Álfhildur Leifsdóttir VG og óháð óskaði að bókað yrði eftirfarandi:
„Sveitarfélögin í landinu hafa almennt staðið sig vel og lagt mikla áherslu á sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, náttúruvernd og varðveislu hefðbundinna landnytja, ekki síst á hálendinu og mikilvægi þess að nærsamfélagið sé þar í lykilhlutverki. Miðhálendisþjóðgarður sem er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stuðlar að náttúrvernd á einstöku svæði sem geymir fágætan gróður og sérstæðar jarðmyndanir.
Þjóðgarðurinn skapar störf bæði í þjónustu og landvörslu sem mikilvægt er tryggja að verði í heimabyggð.
Mikilvægt er að unnið verði náið með heimamönnum í öllu ferlinu og hagsmuna heimafólks og sérstaklega bænda gætt í hvívetna. Þannig fæst góður upptaktur í farsælt samstarf stjórnvalda og sveitarfélaganna um hálendisþjóðgarð þegar af honum verður.“

Í forsendum fyrir stofnun þjóðgarðsins segir m.a. í markmiðssetningu að vernda náttúru og sögu þjóðgarðsins, svo sem landslag, víðerni, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar og tryggja tilvist heildstæðra vistkerfa og náttúrulegra ferla; að gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru, menningar og sögu þjóðgarðsins; að auðvelda almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt er án þess að náttúra hans spillist.

Lagt er til að ráðherra verði heimilt að friðlýsa tiltekið landsvæði á miðhálendinu sem þjóðgarð (Hálendisþjóðgarður) en gert er ráð fyrir að Hálendisþjóðgarður verði sjálfstæð ríkisstofnun með forstjóra og stjórn. Lagt er til að þjóðgarðinum verði skipt í rekstrarsvæði þar sem umdæmisráð marki stefnu og fari með umsjón hvers rekstrarsvæðis, þ.m.t. meginákvarðanir um landnýtingu í stjórnunar- og verndaráætlun. Lagt er til að stjórn þjóðgarðsins marki stefnu í málefnum hans í heild og staðfesti áætlanir og ákvarðanir umdæmisráða. Gert er ráð fyrir að önnur efnisákvæði verði að mestu leyti þau sömu fyrir Hálendisþjóðgarð og eru í gildandi lögum um Vatnajökulsþjóðgarð, t.d. um stjórnunar- og verndaráætlun, almennar meginreglur um háttsemi í þjóðgarðinum, starfsemi í þjóðgarðinum, atvinnustefnu, landnýtingu, þjónustu auk almennra reglna um eftirlit og valdheimildir vegna þess.

Árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður um 600–700 milljónir kr. á ári þegar þjóðgarðurinn verður komin í fullan rekstur og gert er ráð fyrir að auknar sértekjur geti verið 100–200 milljónir kr. Í fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2020–2024 er gert ráð fyrir stigvaxandi fjárveitingum á árunum 2021–2023. Gert er ráð fyrir að þessar auknu fjárveitingar muni standa undir þeim viðbótarrekstrarkostnaði sem hlýst af stofnun Hálendisþjóðgarðs.

Tengdar fréttir og greinar:
Umdeilt frumvarp um hálendisþjóðgarð 
Ráðherra kynnir Hálendisþjóðgarð á fundum um allt land 
Sveitarfélög á Norðurlandi vestra leggjast gegn frumvarpi um hálendisþjóðgarð 
Hálendisþjóðgarður – af hverju og hvernig? 
Hálendisþjóðgarður vinstri grænna? 
Til þess eru vítin að varast þau 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir