Fríður hópur á Samkaupsmóti
Það var fríður hópur krakka í 2. - 4. bekk á Sauðárkróki sem hélt á Samkaupsmót um síðustu helgi ásamt þjálfara og foreldrum. Alls fóru 9 leikmenn á mótið sem haldið var í 19. skiptið.
850 krakkar voru skráðir til leiks á mótinu að þessu sinni. Þátttökugjaldið var aðeins 4000 krónur á leikmann, sem ekki telst mikið miðað við það sem innifalið var í því.
Tindastóll sendi blandað lið til keppni og spiluðu krakkarnir við KR, Keflavík, Grindavík, Njarðvík og Fjölni.
Þrátt fyrir að engin stig væru talin, voru krakkarnir alveg með það á hreinu að þau unnu þrjá leiki, gerðu eitt jafntefli og töpuðu fyrir sterku liði Grindvíkinga.
Leikgleðin var í fyrirrúmi, krakkarnir voru hæst ánægð með ferðina og ekki síður foreldrarnir. Hrafnhildur Kristjánsdóttir þjálfari stjórnaði krökkunum af röggsemi og hafði á orði að árangur krakkanna hefði komið þægilega á óvart.
Krakkarnir voru félagi sínu og foreldrum til sóma.
Fleiri myndir má sjá hér.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.