Friðrik vill lika leiða
Friðrik Jónsson, formaður Framsóknarfélags Akraness, sækist eftir að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi Alþingiskosningum.
Friðrik er með BA-próf í alþjóðasamskiptum og utanríkisþjónustu, MBA-próf í alþjóðaviðskiptum og MA-próf í alþjóðasamskiptum. Hann starfar í dag sem verkefnis- og sviðsstjóri hjá Varnarmálastofnun Íslands (í láni frá utanríkisþjónustunni). Hóf störf í utanríkisráðuneytinu í janúar 1996. Var m.a. starfsmaður sendiráðs Íslands í Washington D.C. frá 1998 til 2002 og staðgengill sendiherra við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn 2002 til 2006. Hefur starfað á alþjóða-, varnarmála-, og viðskiptaskrifstofum utanríkisráðuneytisins. Fyrri störf m.a. hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, í heildsölu og í Seðlabanka Íslands. Auk þess hefur hann sinnt kennslu í sölu- og markaðsfræðum á háskólastigi.
Hann segir í tilkynningu að á fjórtánda ár hafi hann notið þeirrar gæfu að vinna í þjónustu þjóðarinnar innan íslenskrar stjórnsýslu, bæði innanlands og erlendis. „Það hefur gefið mér dýrmæta innsýn og fjölbreytta reynslu sem mun nýtast vel til þeirra átaksverkefna sem framundan eru.
Fyrst og fremst verðum við þó að hefja tafarlausa endurreisn atvinnulífs um land allt. Þar leiðir hvað af öðru og hér verður ríkisvaldið að leika markvisst hlutverk. Því hefur val okkar á fulltrúum til setu á Alþingi sjaldan skipt jafn miklu máli og nú," að því er segir í tilkynningu frá Friðriki.
Friðrik er fæddur í Reykjavík 8. maí 1967. Kvæntur Elínborgu Þóru Þorbergsdóttur. Fjögur börn á aldrinum 3 til 24 ára. Jafnframt á hann þrjá hunda, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.