Framboðsyfirlýsing frá Garðari Víði
Ég, Garðar Víðir Gunnarsson gef kost á mér í 3. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi prófkjöri.
Það er mikið verk fyrir höndum við endurreisn efnahagslífsins og vil ég leggja mitt af mörkum við það verkefni. Það þarf að læra af þeim mistökum sem gerð voru og tryggja þarf að slíkt gerist ekki aftur.
Mikilvægustu verkefni stjórnvalda nú er að treysta stoðir atvinnulífsins og tryggja framgang þess þannig verður jafnframt staðið vörð um hagsmuni heimilanna. Takast verður á við aukið atvinnuleysi og tryggja að Íslendingar þurfi ekki að hverfa úr landi til að hafa í sig og á. Mikilvægt er að landsmönnum öllum sé tryggt félagslegt öryggi. Sýna þarf hóf í ríkisfjármálum og bæta afkomu ríkissjóðs án þess að það verði gert með stóraukinni skattheimtu. Nauðsynlegt er auka veg og virðingu Alþingis og sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdavaldinu.
Ríkið er til fyrir fólkið en ekki öfugt. Kjörnir fulltrúar verða að hafa það hugfast að þeirra umboð kemur frá fólkinu og þeirra hlutverk er að standa vörð um hagsmuni fólksins og í sínum störfum verða þeir að sýna æðruleysi og auðmýkt og ekki skorast undan ábyrgð. Þau gildi sem eru í forgrunni sjálfstæðisstefnunnar eiga við nú sem áður og er mikilvægt að sjálfstæðismenn standi vörð um þá hugsjón sem þeir hafa frá öndverðu sameinast um.
Ég er 27 ára uppalinn Skagfirðingur. Lagði ég stund á nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og útskrifaðist ég þaðan með BA gráðu í lögfræði vorið 2005 og ML gráðu í lögfræði 2007. Árið 2006 fór ég sem skiptinemi til Japan þar sem ég lagði stund á alþjóðlega efnahags- og viðskiptalögfræði við Kyushu University. Fór ég í framhaldsnám til Svíþjóðar og nam þar alþjóðlegan gerðardómsrétt við Háskólann í Stokkhólmi. Útskrifaðist ég þaðan með LL.M gráðu síðast liðið sumar.
Samhliða námi hef ég verið virkur í félagsstörfum, sat ég m.a. þrjú ár í stjórn Nemendafélags Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, var varaformaður Lögréttu félags laganema við Háskólann í Reykjavík og formaður málfundafélags Lögréttu skólaárið 2004 - 2005. Auk þess var ég einn af stofnmeðlimum Skákíþróttafélags Háskólans í Reykjavík. Jafnframt hef ég látið mig hagsmunamál námsmanna varða og sat í stjórn Bandalags íslenskra námsmanna frá 2004 til 2006 og var m.a. formaður hagsmunanefndar og lagabreytinganefndar félagsins. Hef ég tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins um langa hríð og var m.a. formaður Víkings félags ungra sjálfstæðismanna í Skagafirði. Auk þess að hafa tvívegis setið í varastjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna fyrir Norðvesturkjördæmi.
Starfaði ég sem rafvirkjanemi á Sauðárkróki samhliða námi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og vann einnig við ýmis störf hjá Lýsingu hf. samhliða háskólanámi. Nú starfa ég sem lögfræðingur hjá KPMG hf. og er stundakennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.