Framboðsyfirlýsing
Ég, Halla Signý Kristjánsdóttir, hef ákveðið að gefa kost á mér í 1.-2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar 2009.
Ég er fædd árið 1964, alin upp á Brekku á Ingjaldssandi, Önundarfirði og er nú búsett í Bolungarvík. Gift Sigurði G. Sverrissyni og eigum við fjögur börn. Ég útskrifaðist frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst 2005 sem viðskiptafræðingur og starfa nú sem skrifstofu- og fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar. Áður var ég bóndi á Kirkjubóli í Bjarnardal. Ég hef lengi starfað með Framsóknarflokknum og sat í stjórn Framsóknarfélags Ísafjarðarbæjar um nokkurt skeið og nokkur misseri var ég ritstjóri Ísfirðings, blaðs framsóknarmanna á Vestfjörðum.
Áherslur mínar í þjóðfélagsmálum snúa að byggðamálum, atvinnumálum og velferðarmálum. Sveitarstjórnarmál eru mér hugleikin enda starfa ég á þeim vettvangi. Það að sveitarfélög séu sjálfstæð, bæði fjárhagslega og stjórnsýslulega, er mikið kappsmál til þess að þau geti staðið undir þeirri nærþjónustu sem þeim ber skylda að sinna samkvæmt lögum. Til þess þarf að tryggja réttláta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.
Miklu máli skiptir að samfélög úti um landið verði byggð upp innanfrá í formi menntunar í heimabyggð á öllum skólastigum. Einnig er mikilvægt að skapa aðstæður fyrir atvinnuskapandi hugmyndir og þannig verði frumkvöðlastarfi fundinn frjór farvegur.
Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir náttúrunni og tel að maðurinn hafi engan rétt að taka meira til sín en hann getur skilað frá sér aftur. Sjálfbær nýting auðlinda skal gerð í samræmi við þá mynd sem við viljum skila til afkomenda okkar.
Það er mikilvægt að þjóðin öll fái nú áheyrn í því endurreisnarstarfi sem framundan er í íslensku þjóðfélagi. Allir grunnatvinnuvegir þjóðarinnar, sem hafa verið undirstaða hagkerfisins og standa enn alla storma af sér, verða að endurheimta þá virðingu sem áður var borin fyrir þeim. Auk þess verður að kalla fram frumkvöðla til að blása lífi í framtíðina og til að koma auga á ný tækifæri bæði hér innanlands sem erlendis. Það má ekki gleyma því að í breytingum felast tækifæri og við verðum að vera bjartsýn til að koma auga á þau.
Þeir sem verða kallaðir til starfa næstu fjögur árin á Alþingi Íslendinga takast á við erfitt og fjölbreytt verkefni. Í því felst að við verðum að taka á móti þeim með bjartsýni og þeirri von að hægt sé að snúa hagkerfinu í átt til farsældar og jafnvægis fyrir þjóðina alla. Ég tel mig hafa fullan kraft og hæfileika til að takast á við það verkefni að fara fram með framsóknarfólki í Norðvesturkjördæmi og þess vegna sækist ég eftir trausti í póstkosningu nú í byrjun mars.
Halla Signý Kristjánsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.