Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu :: Magnús Davíð Norðdahl Píratar

Píratar hafa fest sig í sessi í íslenskri pólitík þó ekki hafi þeir enn tekið þátt í að mynda meirihluta á Alþingi. Magnús Davíð Norðdahl reynir nú að sannfæra kjósendur í Norðvesturkjördæmi að greiða honum götu svo Píratar á svæðinu fái mann á Alþingi. Magnús Davíð var á lista Pírata í kjördæminu fyrir síðustu alþingiskosningar en vermir nú í oddvitasætið hvar Eva Pandora Baldursdóttir sat áður.

Magnús Davíð, sem býr í höfuðborginni, er sjálfstætt starfandi mannréttindalögmaður giftur Auði Kömmu Einarsdóttur, atvinnuráðgjafa, og saman eiga þau tvö börn, 9 og 5 ára.

Ásamt því að hafa lokið meistaraprófi í lögfræði er Magnús Davíð með BA-próf í heimspeki, sótti framhaldsnám til Nýja Sjálands og hefur einnig búið og unnið í Danmörku. Samhliða háskólanámi sinnti hann kennslu í grunnskóla um fjögurra ára skeið og þá hefur hann tekið þátt í starfi Íslandsdeildar Amnesty International og var um tíma stjórnarformaður hennar.

Eins og áður segir starfar Magnús Davíð sem mannréttindalögmaður og hefur rekið sína eigin stofu síðastliðin átta ár en hann segist eiga þann draum að verða bóndi áður en starfsævinni lýkur.

Pólitík

Magnús Davíð segir hreyfingu Pírata vera frjálslynt, félagshyggjusinnað og and-popúlískt umbótaafl í íslensku samfélagi og hvetur alla til að íhuga það að setja krossinn við Pírata. „Við erum reiðubúin að bjóða fram krafta okkar og allan okkar baráttuvilja til þess að stuðla að aukinni hagsæld íbúa Norðvesturkjördæmis. Þeir stjórnmálaflokkar, sem hafa farið með meirihluta þingstyrks á Alþingi á síðustu árum, hafa fengið sitt tækifæri og nú er komið að öðrum að leiða nauðsynlegar og löngu tímabærar umbætur. Píratar eru framsæknir, byggja á gagnrýninni hugsun og vilja að stefnan hverju sinni taki mið af fyrirliggjandi gögnum og þekkingu. Þannig næst árangur,“ segir hann.

Hann vill aukið beint lýðræði og valddreifingu, þannig að íbúar hvers svæðis hafi mest um sín mál að segja og vill veita þeim málum brautargengi. „Krafturinn, þekkingin, getan og viljinn býr í heimabyggð. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að vaða úr einu byggðalagi í annað og kynna hina einu sönnu lausn, heldur fremur að tryggja viðeigandi umgjörð og innviði þannig að hagur íbúa hvers svæðis blómstri á forsendum íbúanna sjálfra. Hlutverk þingmanna er að hlusta vel á íbúana og gæta hagsmuna þeirra af einurð og ábyrgð.

Hvernig sérðu fyrir þér að þú náir því máli fram og hvernig yrði það fjármagnað?

„Ein leið að þessu marki er að fjölga svæðisbundnum atkvæðagreiðslum og virða niðurstöður sem þar koma fram. Kostnaður við slíkt er óverulegur en augljós ávinningur að íbúar nærsamfélags hafi sem mest um sín mál að segja.“

Í samtölum sínum við kjósendur í Norðvesturkjördæmi segir Magnús Davíð nokkur atriði hafa borið á góma oftar en önnur. Ber þar hæst skortur á innviðum, fullnægjandi samgöngum og umhverfi sem bjóði upp á raunveruleg tækifæri til atvinnusköpunar þar sem til verða góð og vellaunuð störf til framtíðar. „Þá hafa kjósendur nefnt mikilvægi þess að tryggja afhendingaröryggi raforku, auka frelsi minni útgerða til sjósóknar, að ráðist verði í löngu tímabærar samgönguúrbætur, framfærsla bænda verði tryggð og að tekjustofnar sveitarfélaga verði efldir til muna. Þá verði að tryggja að jafnan rétt til grunnþjónustu, þ.e. menntunar og heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu. Það á ekki að skipta máli hvort einstaklingur býr á landsbyggðinni eða í Reykjavík, tækifærin eiga að vera þau sömu.“

Magnús Davíð segir að ef kjósendur séu ánægðir með stöðu mála í samfélaginu væri rétt að þeir kjósi áfram þá flokka sem hafa farið með völdin síðustu ár. „Ef fólk vill hins vegar sjá breytingar í samfélaginu þá er rétt að gefa öðrum stjórnmálaflokkum tækifæri. Við Píratar brennum af áhuga og krafti til þess að láta gott af okkur leiða og erum reiðubúnir að axla þá ábyrgð sem stjórnarsamstarfi fylgir,“ segir hann.

Léttari spurningar

Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju?
-Somewhere over the Rainbow með Israel "IZ" Kamakawiwoʻole'. Angurvært en fallegt lag. Minnir mann á að taka lífinu ekki of alvarlega og hugsa um það sem virkilega skiptir máli.

Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina?
-Ganga á Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku.

Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni?
-Jón Gnarr. Maðurinn er einstaklega fyndinn og skemmtilegur.

Hvert er aðaláhugamál þitt?
-Veiðar, útivist og lestur bóka.

Jafnvægisspurningar

Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi?

Ísland gangi í ESB 0
Fá splunkunýja stjórnarskrá 10
Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar 10
Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu 0
Lækka almenna skatta 0

Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir 10
Stokka landbúnaðarkerfið upp 10
Fleiri opinber störf án staðsetningar 10
Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra 10
Banna alfarið vélar og farartæki sem brenna jarðeldsneyti 0

Lokaspurning:

Hvernig aukum við lýðræði með engu kjaftæði?
-Með því til dæmis að fjölga svæðisbundnum atkvæðagreiðslum þar sem íbúar nærsamfélags fá tækifæri til að hafa bein áhrif á samfélag sitt.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir