Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu :: Guðmundur Gunnarsson, oddviti Viðreisnar

Guðmundur Gunnarsson er fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og segist vera 45 ára metnaðarfullur Vestfirðingur sem brenni fyrir hagsmunum landsbyggðanna. Guðmundur segir kjördæmið þurfi að eiga öflugan málsvara sem sjái til þess að mikilvæg framfaramál svæðisins séu alltaf á dagskrá. Hann leggur mikla áherslu á að við megum ekki gleyma að tryggja fólki grunnþjónustu og jarðveg til þess að sækja fram um allt land. Hann er tilbúinn í verkið og hvetur kjósendur í Norðvesturkjördæmi til að setja krossinn hjá sér á kjördag.

Hvaða máli værir þú vís með að setja á oddinn náir þú kjöri?
„Allt sem lýtur að því að jafna stöðu þorpanna og koma í veg fyrir að íbúum sé mismunað út frá búsetu. Við verðum að leggja miklu meiri áherslu á öryggi, samgöngur, orkumál og heilbrigðisþjónustu í kjördæminu. Slíkar þjóðhagslega hagkvæmar fjárfestingar munu gagnast okkur öllum því kjördæmið er stútfullt af vannýttum tækifærum og kraftmiklu fólki,“ segir Guðmundur.

Hvernig hann sjái það fyrir sér að það mál nái fram að ganga og hvernig fjármagnað nefnir Guðmundur m.a. að tengja krónu við evru. „Þannig getum við sparað að minnsta kosti 70 milljarða í vaxtakostnað árlega. Og þá er ég bara að tala um vaxtakostnað ríkisins. Einnig má nefna hóflega leið sanngirnis í veiðigjöldum. Þannig að svæði sem hafa hingað til farið halloka vegna óréttláts kerfis fái aukna tekjustofna til að standa undir þjónustu við íbúana.

Hvað telur þú að brenni helst á kjósendum á Norðurlandi vestra?
„Vanrækt grunnkerfi. Samgöngur, orkumál og svo að sjálfsögðu atvinnumál. Byggðamál eru jafnréttismál og það er mjög rík tilfinning hjá íbúum um allt kjördæmið að svæðið hafi setið eftir og mæti sífellt afgangi,“ segir Guðmundur bætir við að allir verði að hafa kjark til að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum kerfisbreytingum og rjúfa stöðnun. „Kyrrstaða síðustu áratuga hefur leikið Norðvesturkjördæmi grátt.“

 Léttari spurningar

Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju?
-Hlusta mikið á tónlist og alveg sérstaklega núna á þeytingi um kjördæmið. Spurði 10 ára dóttur mína og hún nefndi strax „Glaðasti hundur í heimi“. Ég sætti mig við það.

Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina?
-Börnin mín að sjálfsögðu og að hafa krækt í konuna mína á balli á Akureyri.

Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni?
-Ég myndi bjóða Eddu Björgvins. Held hún sé sjúklega klár og skemmtileg. Átrúnaðargoð æsku minnar.

Hvert er aðaláhugamál þitt?
Að vera á fjöllum og syngja með Karlakórnum Esju

 

Jafnvægisspurningar

Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi?

Ísland gangi í ESB8
-Stefna Viðreisnar er skýr. Við viljum klára aðildarviðræðurnar og teljum hagsmunum Íslands betur borgið með sæti við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar. Að því gefnu þó að samningurinn, sem mun alltaf vera borinn undir þjóðina, tryggi okkur betri stöðu en áður. Ef hann gerir það ekki munum við öll kjósa eins og þá getum við lagt þetta mál til hliðar.

Fá splunkunýja stjórnarskrá - 9
-Það er gríðarlegt hagsmunamál sjávarbyggða að fá inn nothæft auðlindaákvæði í stjórnarskrá Tryggja þannig þjóðareign auðlinda og tímabinda afnot af fiskimiðum.

Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar - 1
-Það hefur því miður verið raunin, eins og gerist í öllum opnum veiðum, að slíkar aðgerðir fara úr böndunum. Viðreisn leggur höfuðáherslu á að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum og að tímabinda samninga. Það er stærsta hagsmunamál þeirra sjávarbyggða sem hafa farið verst úti.

Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu - 3
-Umbætur í kerfinu snúast ekki um rekstrarform. Þjónustan er það sem skiptir máli. Með samningum við fyrirtæki og félagasamtök er vel hægt að bæta þjónustuna. Ríkið greiðir þá fyrir það eins og annað og sinnir virku eftirliti. Ég er á sama tíma þeirrar skoðunar að sterkt opinbert kerfi verði alltaf að vera kjölfestan. Við verðum að útrýma óásættanlegum biðlistum og bæta þjónustuna um allt land. Hvort það gerist innan spítalans eða utan er aukaatriði.

Lækka almenna skatta - 1
-Það er varhugavert á þessum tímum að ráðast í róttækar breytingar á sköttum. Það eru margar bráðnauðsynlegar kerfisbreytingar og umbætur sem geta skilað okkur betri árangri í bættri velferð en beinar breytingar á sköttum.

Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir - 2
-Sama svar og áður en ég er þó á því að við verðum að lagfæra kerfið í kringum veiðigjöldin. Við verðum að finna út raunverulegt verðmæti aflans út frá virði á markaði.

Stokka landbúnaðarkerfið upp - 8
-Kerfið beinlínis gargar á endurskoðun sem færir okkur nær nútímanum. Bændur eiga að hafa miklu meira um það að segja hvernig þeir haga sínum búskap. Núverandi kerfi er óskilvirkt.

Fleiri opinber störf án staðsetningar - 9
-Verkefnið störf án staðsetningar er ágætt en árangurinn er rýr. Enda tekur það bara til nýrra starfa eða starfa sem losna. Það nær ekki til þess starfsfólks sem eru sátt í sínu starfi en myndi gjarnan vilja getað flutt starfið með sér út á land. Stofnanir eiga að koma upp starfsstöðvum í fjarvinnustöðvum sem spretta upp um allt land. Hvetja þannig til betri dreifingar opinberra starfa á forsendum starfsmannanna sjálfra og lækka um leið húsnæðiskostnað hins opinbera í dýrustu hverfum landsins.

Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra - 8
-Viðreisn er á því að enginn lífeyrisþegi almannatrygginga skuli fá lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Lífeyriskerfi almannatrygginga skal einfaldað og skerðingum hætt vegna launatekna. Það er réttlætismál.

Banna alfarið vélar og farartæki sem brenna jarðeldsneyti - 7
-Þessi þróun er nú þegar á fleygiferð og mun óhjákvæmilega leiða til þess að jarðeldsneyti mun heyra sögunni til. Við eigum að sjálfsögðu að stefna að því að vera sjálfbær um þá orku sem knýr samgöngutækin okkar.

Lokaspurning

Hvert er tækifæri framtíðarinnar?
-Okkar risastóra tækifæri í Norðvesturkjördæmi er að hlúa betur að landsbyggðunum. Þar flæða vannýtt tækifæri um alla firði og dali. Með því að efla grunnkerfi úti á landi og dreifa áherslum okkar víðar um landið munum við stórauka verðmæti þjóðarbúsins. Ríkið þarf að sýna í verki að það hafi jafn mikla trú á kjördæminu og fólkið gerir sem þar býr.

 ----

Nú stendur kosningabarátta frambjóðenda til Alþingis sem hæst en kosningar fara fram á morgun laugardag. Af því tilefni fékk Feykir frambjóðendur Norðvesturkjördæmis til að svara misgáfulegum spurningum og kynna sig og stefnumál sín í kosningablaði sem kom út í síðustu viku. Sjá HÉR
Eins og gefur að skilja er forvitnast um pólitíkina en að auki eru nokkrar spurningar í léttari kantinum. Lokaspurningin vísar svo til slagorða framboðsins eða flokksins sem þeir standa fyrir. Að sjálfsögðu tóku þau öll vel í umleitanir blaðsins þó mikið væri að gera á öllum vígstöðvum á lokasprettinum.Vonandi verða lesendur einhvers vísari um frambjóðendurna tíu og nái að kynnast þeim þó ekki væri nema lítillega og þau mál sem þeir vilja setja á oddinn nái þeir kjöri þann 25. september nk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir