Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu :: Eyjólfur Ármannsson Flokkur fólksins
Í forystusæti Flokki fólksins í Norðvesturskjördæmis situr Eyjólfur Ármannsson, lögfræðingur LL.M. Hann er fæddur í Vestmannaeyjum, sonur Guðjóns Ármanns Eyjólfssonar, sjóliðsforingja og skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík til margra ára, og Aniku Jónu Ragnarsdóttur, húsmóður og sjúkraliða. Eyjólfur var rúmlega þriggja ára þegar fjölskyldan flutti gosnóttina frá Eyjum til Reykjavíkur, þar sem hann ólst upp.
„Ég er Víkingur og spilaði handbolta, fótbolta og m.a.s. blak með þeim á yngri árum. Frá barnæsku hef ég ávallt dvalist mikið á Vestfjörðum og var mikið í sveit hjá móðursystur minni, sem var einbúi síðustu árin í Lokinhamradal, milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, þaðan sem móðurfólk mitt kemur,“ segir Eyjólfur. Hann er lögfræðingur frá Háskóla Íslands, nam Evrópurétt við Kaþólska háskólann í Leuven í Belgíu og með meistarapróf í lögfræði (LL.M.) frá University of Pennsylvania og nam í hagfræði í Wharton. Þá hefur hann unnið víða innan stjórnsýslunnar, hjá sýslumönnum í Hafnarfirði og Skagafirði, fjármálaráðuneytinu, Fjármálaeftirlitinu, Skipulagsstofnun, og var aðstoðarsaksóknari í Efnahagsbrotadeild og í lögmennsku.
„Frá 2011 vann ég hjá norska stórbankanum DNB í Osló og síðar hjá Nordea, stærsta banka Norðurlanda. Undanfarið hef ég gætt hagsmuna landeigenda í Arnarfirði og Dýrafirði í þjóðlendumálum og unnið á sviði upplýsingatækni að hönnun áhættuflokkunarkerfis fyrir CE-vottun lækningatækja.“
Þá má nefna líka að Eyjólfur er formaður Orkunnar okkar, samtaka sem vilja standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt Íslands í orkumálum, og einn höfunda sérfræðingaskýrslu Samtakana um þriðja orkupakkann og orkustefnu ESB; “Áhrif inngöngu Íslands í orkusamband ESB – frá orkusamvinnu til orkusambands”.
Pólitík
Eyjólfur segir kjördæmið þurfa fulltrúa á Alþingi sem talar gegn fátækt, afnámi tekjuskerðinga á elli- og örorkulífeyri, og berst fyrir bættri heilbrigðisþjónustu, frjálsum handfæraveiðum fyrir sjávarbyggðirnar og bættum samgöngum og innviðum í kjördæminu og þess vegna sé hann góður kostur í kosningabaráttunni.
Eftirfarandi mál væru sett í öndvegi náir Eyjólfur kjöri:
- Lágmarksframfærsla verði 350.000 kr. skatta- og skerðingalaust!
- Jöfnun búsetuskilyrða,
- Samgöngu- og innviðamál,
- Heilbrigðismál,
- Menntamál,
- Afnám tekjuskerðingar ellilífeyris- og örorkubóta,
- Frjálsar handfæraveiðar.
„Jöfnun búsetuskilyrða er réttlætismál. Kveðið er á um jafna stöðu borgaranna í stjórnarskrá og hún er óháð búsetu. Þetta virðist gleymast og litið er á umbætur í samgöngu- og innviðamálum sem útgjöld þegar í forgrunni á að vera mikilvægi fyrir byggð í landinu og þjóðhagsleg hagkvæmni!
Jarðgöng eru ekki lúxus og tvær jarðgangaframkvæmdir ættu að vera í gangi samtímis á næstu árum. Einungis tíu jarðgöng eru í notkun á Íslandi. Gera ætti t.d Tröllaskagagöng á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.
Sundabraut er þjóðhagslega hagkvæmasta vegaframkvæmdin sem völ er á í dag. Hún hefur verið til umræðu áratugum saman. Sundabraut er hagsmunamál fyrir allt NV-land og styttir akstur til Reykjavíkur um hálftíma. Ef 6.000 bílar aka þessa leið á dag sparar það 3000 vinnustundir á dag sem er gríðarleg þjóðhagsleg hagkvæmni á ársgrundvelli.
Samgöngu- og innviðaframkvæmdir á að fjármagna fyrst og fremst með skattfé. Hvalfjarðarmódelið mætti nota við fjármögnun ákveðinna vegaframkvæmda til að flýta þeim en þá þarf að vera valkostur á annarri leið. Það kæmi til greina við Sundabraut til að flýta framkvæmdum. Ríkið gæti einnig gefið út skuldabréf (samgöngubréf) til að fjármagna vegaframkvæmdir. Hvati er til að kaupa hlutabréf og hann ætti að ná til ríkisskuldabréfa, sem eru áhættulaus. Skortur er á fjárfestingakostum á Íslandi og þetta yrði góð viðbót.
Frjálsar handfæraveiðar kosta ekkert. Veiðar á öngul ógna ekki fiskistofnum við Ísland og á því að gefa frjálsar. Kvótakerfið var sett á til verndar fiskistofnun og á einungis að ná til þeirra veiða sem geta stofnað fiskistofnum í hættu svo gætt sé meðalhófs.
Heilbrigðismálin eru gríðarlega mikilvæg. Á Covid-tímum hefur mikilvægi þeirra komið vel í ljós. Efla þarf héraðssjúkrahúsin og heilsugæslu á landsbyggðinni. Við viljum biðlistana burt og byggja þjónustu með upplýsingatækni líkt og Covid-deild Landspítalans hefur gert með fjarþjónustu. Sem sjálfstæð þjóð verða Íslendingar að geta rekið eitt hátæknisjúkrahús með reisn. Undirfjármögnun sl. ára hefur komið í veg fyrir það. Heilbrigðiskerfið er einn af hornsteinum nútímasamfélags og mikilvægt að þar sé betur staðið að málum. Íslendingar verja í dag 8.7% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál, langt undir meðaltali á Norðurlöndum. Þjóðin vill bæta hér úr. Það sýndi undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar 2016 þar sem um 85.000 manns kröfðust þess að 11% af vergri landsframleiðslu færu í heilbrigðismál, sem er svipað og í nágrannalöndunum.
Flokkur fólksins hyggst fjármagna baráttumál sín með afnámi undanþágu lífeyrissjóða til að halda eftir staðgreiðslu skatta við innborgun í sjóðina. Sú breyting mun skila ríkissjóði tugum milljarða króna árlega (70 ma.) án þess að skerða lífeyrisréttindi fólksins. Færa þarf persónuafsláttinn frá þeim ríku til efnaminni. Það er réttlátt og eðlilegt. Fullt verð á að innheimta fyrir aðgang að sjávarauðlindinni. Við viljum hækka bankaskattinn en hann var lækkaður. Hagnaður bankanna er óeðlilega hár og samkeppnin er bara vörumerkjasamkeppni. Við munum hreinsa til í kerfinu og draga úr óþarfa útgjöldum ríkissjóðs. Af nógu er að taka.“
Hvað telur þú að brenni helst á kjósendum á Norðurlandi vestra?
„Jöfnun búsetuskilyrða. Heilbrigðisþjónusta. Samgöngu- og innviðamál. Brothættar byggðir sem þarf að styrkja. Frjálsar handfæraveiðar.“
Léttari spurningar
Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju?
-Draumaprinsinn. https://www.youtube.com/watch?v=7KgY2UAy3BQ
Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina?
-Að hafa búið í Osló að mestu frá 2011. Það hefur verið dýrmæt reynsla.
Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni?
-Joseph R. Biden, Bandaríkjaforseti. Gætu orðið áhugaverðar umræður og skemmtilegt fyrir gestina.
Hvert er aðaláhugamál þitt?
-Hef mikinn áhuga á sögu, samfélagsmálum og því sem gerist í heiminum. Les mikið. Hef einnig mjög gaman af alls konar tónlist og fylgjast með landsliðum okkar í fótbolta, handbolta og körfubolta.
Jafnvægisspurningar
Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi?
Ísland gangi í ESB
0 – Ekki til umræðu. Nýtum tækifæri EES-samningsins og gætum hagsmuna okkar þar, sem við höfum ekki gert, t.d. í orkumálum.
Fá splunkunýja stjórnarskrá
10 – Já, og mikilvægt að þjóðarviljinn fái að ráða. Við lýðveldisstofnun 1944 var þjóðinni lofað nýrri stjórnarskrá en hún er enn ókomin. Ný stjórnarskrá á ekki að umbylta stjórnkerfinu eða þingræði í landinu.
Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar
10 – Frjálsar handfæraveiðar eru eitt helsta baráttumál Flokks fólksins. Þær myndu hleypa lífi í brothættar sjávarbyggðir. Ekki er hægt að ofveiða með handfærum. Veður og árstíðir takmarka veiðarnar.
Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu
6 – Í dag er einkarekstur mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu, t.d. hjá félagasamtökum. Það er ekki að fara breytast. Ríkisrekstur í bland við einkarekstur er æskilegur til að tryggja samkeppni, nýjungar og hagkvæmni. Fráleitt að senda fólk í aðgerðir erlendis þegar auðvelt er að veita sömu þjónustu hérlendis með þrefalt lægri kostnaði.
Lækka almenna skatta
7 – Skattleggjum ekki fátækt. Eitt helsta baráttumál Flokks fólksins er að lágmarksframfærsla verði 350.000 kr. skatta- og skerðingalaust!
Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir
7 – Þjóðin þarf að fá sanngjarnt og fullt verð fyrir aðgang að fiskveiðiauðlind sinni.
Stokka landbúnaðarkerfið upp
7 – Ef það er gert, þá er einungis hægt að gera það í samráði við bændur. Mikilvægt er að tryggja hagsmuni íslenskrar bændastéttar, byggðar í landinu, fæðuöryggi og fjölbreytta íslenska matvælaframleiðslu til hagsbóta fyrir bændur og neytendur.
Fleiri opinber störf án staðsetningar
10 – Hraða mætti þessari þróun enn frekar.
Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra
10 – Algjörlega! Þetta er eitt helsta baráttumál xF, Flokks fólksins.
Banna alfarið vélar og farartæki sem brenna jarðeldsneyti
5 – Ekki komið að því í dag en mjög mikilvægt að hraða orkuskiptunum eins og kostur er. Við hjá Flokki fólksins viljum að Ísland axli ábyrgð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum án þess að aðgerðir í þágu umhverfisverndar bitni á almenningi sem hefur úr litlu að moða fjárhagslega. Það hafa t.d. ekki allir efni á því að skipta yfir í rafbíla að óbreyttu.
Lokaspurning
Af hverju fólkið fyrst og svo allt hitt?
Af því að stjórnmál og samfélagið á að snúast um fólk.
Ef ekki fólk fyrst og svo allt hitt, hvað þá?
Við hjá Flokki fólksins viljum réttlæti fyrir alla í ríku landi!
-----
Nú stendur kosningabarátta frambjóðenda til Alþingis sem hæst en kosningar fara fram nk. laugardag. Af því tilefni fékk Feykir frambjóðendur Norðvesturkjördæmis til að svara misgáfulegum spurningum og kynna sig og stefnumál sín í kosningablaði sem kom út í síðustu viku.
Eins og gefur að skilja er forvitnast um pólitíkina en að auki eru nokkrar spurningar í léttari kantinum. Lokaspurningin vísar svo til slagorða framboðsins eða flokksins sem þeir standa fyrir. Að sjálfsögðu tóku þau öll vel í umleitanir blaðsins þó mikið væri að gera á öllum vígstöðvum á lokasprettinum.
Vonandi verða lesendur einhvers vísari um frambjóðendurna tíu og nái að kynnast þeim þó ekki væri nema lítillega og þau mál sem þeir vilja setja á oddinn nái þeir kjöri þann 25. september nk.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.