Frábær fyrsti leikhluti lagði grunninn að sigri gegn Grindavík

Sadia Doucoure var ógnarsterkur í leiknum. MYND: KARFAN.IS
Sadia Doucoure var ógnarsterkur í leiknum. MYND: KARFAN.IS

Grindavík og Tindastóll mættust í Smáranum í Kópavogi í gærkvöldi. Grindvíkingar voru taplaustir fyrir leik, höfðu líkt og lið Tindastóls unnið Hauka og ÍR og rassskellt lið Hattar. Þetta var leikur tveggja liða sem ætla sér langt í vetur og hafa bæði mannskapinn í það – bara spurning hvernig tekst til með að búa til lið og stemningu. Leikurinn reyndist stórskemmtilegur, Stólarnir áttu frábæran fyrsta leikhluta og það sem eftir lifði leiks voru Grindvíkingar að berjast við að saxa á forskotið. Þeir komust nálægt því að jafna í lokin en Stólarnir héldu út og voru kampakátir með tvö góð stig. Lokatölur 90-93.

Jafnræði var með liðunum framan af og staðan 9-9 þegar fjórar mínútur voru liðnar. Þá skyndilega fór allt að ganga upp hjá Stólunum í vörn og sókn og strákarnir náðu 15-0 kafla á næstu fjórum mínútum og Grindvíkingar virtust ekki vita hvort þeir voru að koma eða fara. Enn bættu gestirnar stöðuna og voru tuttugu stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta. Staðan 12-32. Þeir sem eru vel að sér í sagnfræði Tindastóls vita að gott forskot getur verið fljótt að fara – ekki hvað síst gegn góðum andstæðingum. Grindvíkingar náðu að saxa á forskotið í öðrum leikhluta og munurinn var tólf stig um hann miðjan, 31-43, en Stólarnir gerðu vel í því að hleypa heimamönnum ekkert nær og munurinn yfirleitt um 15 stig fram að leikhléi. Staðan í hálfleik 45-59.

Það mátti reikna með að Grindvíkingar kæmu baráttuglaðir til leiks í síðari hálfleik og sú var raunin. Um miðjan þriðja leikhluta var munurinn aðeins sex stig, 58-64, en í stað þess að nýta sér meðbirinn gerðu heimamenn nokkur slæm mistök í sókn og vörn og á lokakafla leikhlutans náðu Stólarnir muninum á ný upp í 14 stig með góðum körfum frá Sadio, Geks og Basile. Staðan 63-77. Lokakaflinn reyndi nokkuð á taugar fjölmargra stuðningsmanna Stólanna sem létu að vanda vel í sér heyra á útivelli. Lið Grindavíkur hóf að saxa á forskot Tindastóls en Stólunum til hróss þá kom aldrei einhver alvöru slæmur kafli og alltaf datt ein og ein karfa inn. Sérstaklega var Basile drjúgur að skila boltanum rétta leið. Í stöðunni 82-88 negldi Arnar niður þristi og kom muninum í níu stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en heimamenn gáfust ekki upp og þeir minnkuðu muninn í fjögur stig, 87-91, og mínúta eftir. Daniel Mortensen minnkaði muninn í tvö stig þegar níu sekúndur voru eftir en víti frá Basile kom muninum í þrjú stig og Grindvíkingar náðu ekki að finna skot til að jafna leikinn í blálokin.

Flottur sigur því staðreynd og allt önnur orka og einbeiting í liði Tindastóls í þessum leik en þeim fyrstu. Liðið lék á alsoddi í fyrri hálfleik og þá var Sadio hreint frábær. Þegar hægðist á leik liðsins í síðari hálfleik var það Basile sem tók yfir. Annars var allt lið Tindastóls að gera vel og gaman að horfa á leik liðsins í gær. Atkvæðamestur var Basile með 27 stig og sjö fráköst og sjö stoðsendingar, Sadio gerði 24 stig og tók átta fráköst, Geks var með 15 stig og Giannis 12. Drungilas gerði sex stig og tók átta fráköst en á þeim 26 mínútum sem hann spilaði unnu Stólarnir leikinn með 16 stigum.

Næstkomandi fimmtudag eiga Stólarnir heimaleik gegn Hetti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir