„Frábær fyrirmynd og hverju samfélagi nauðsynlegur“
Húnahornið segir frá því að lesendur miðilsins hafi valið Valdimar Guðmannsson sem mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2020. Valdimar hefur unnið mikið og óeigingjarna starf fyrir kirkjugarðinn á Blönduósi og verið jákvæður og hvetjandi á margan hátt fyrir samfélagið sitt. Hann hefur meðal annars staðið fyrir vinsælum kótelettukvöldum á Blönduósi, stutt samfélagsverkefni á svæðinu og verið óþreytandi að tala jákvætt um allt sem húnvetnskt er.
Þeir sem tilnefndu Valla höfðu m.a. þetta um hann að segja:
„Hann er ótrúlega duglegur að tala bæinn Blönduós upp, skapa ný og skemmtileg verkefni, minna íbúa á gæði bæjarins og þess að búa þar. Hvetja til nýrra og góðra verka. Sér tækifæri í öllu og hikar ekki við að benda á þau. Hann er bara frábær fyrirmynd og hverju samfélagi nauðsynlegur. Að tala lítið samfélag upp er ofsalega hvetjandi og skapar jákvæðni meðal íbúa.“
„Valli hefur unnið frábært starf, ásamt öðrum, við að laga og fegra kirkjugarðinn okkar. Og svo er hann svo jákvæður og óþreytandi við að tala upp sveitarfélagið okkar.“
„Fyrir óeigingjarnt starf fyrir samfélagið á Blönduósi. Maður sem er tilbúinn að leggja allt á sig hvort sem það tengist félagsstörfum, kótilettukvöldi eða kirkjugarðinum sem margir tala um sem fallegasta og snyrtilegasta kirkjugarð landsins.“
„Fyrir öflugt starf í þágu Blönduósbæjar og umhverfi. Vinna við kirkjugarð, Kótilettukvöld og þrautseiga við að auglýsa húnvetnskar afurðir.“
Í frétt Húnahornsins segir: „Undir eðlilegum kringumstæðum hefði verið tilkynnt um niðurstöðuna í valinu á Blöndublóti – þorrablóti Blönduósinga í gærkvöldi en vegna kórónuveirufaraldursins var ekkert þorrablót haldið. Valdimar mun á næstu dögum fá heimsókn frá Húnahornsmönnum og fær hann afhentan viðurkenningarskjöld til staðfestingar valinu og gjöf frá Húnahorninu, líkt og venja er.
Þá var öllum þeim sem sendu inn tilnefningu þökkuð þátttakan sem var sérlega góð að þessu sinni. „Fjölmargir fengu verðskuldaða tilnefningu en langflestar féllu þær Valdimar í skaut. Má þar nefna að í öðru sæti í valinu var Jóhannes Torfason, framkvæmdastjóri Ámundakinnar, og í þriðja sæti hjónin Björn Þór Kristjánsson og Sandra Kaubriene sem eiga og reka veitingastaðinn B&S Restaurant.“
Valli var einn þeirra sem tilnefndur var í valinu á Manni ársins 2020 á Norðurlandi vestra en náði þó ekki toppnum í þeirri kosningu. Þá var hann í viðtali við Feyki sl. haust þar sem rætt var um framkvæmdir við kirkjugarðinn á Blönduósi. Feykir óskar Valdimar Guðmannssyni til hamingju með verðskuldaðan heiður. Sjá viðtal >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.