Föstudagurinn langi: Fljótamót og fleira
Það er nóg um að vera á Norðurlandi vestra um Páskahelgina. Í dag, föstudag, er þar meðal annars að finna Fljótamót í skíðagöngu, guðþjónustur og lestur Passíusálma.
Í síðasta tölublaði Sjónhorns birtist Páskadagskráin í Skagafirði og einnig er að finna upplýsingar um viðburði páskanna í Glugganum í Austur-Húnavatnssýslu og Sjónaukanum í Húnaþingi vestra
Skíðasvæðið í Tindastól verður opin frá kl. 11-16 í dag og verður tónlist í fjallinu. Grillað verður að hætti Skagfirðinga og haldið verður bakarísmót Sauðárkróksbakarís. Þá verður töfrateppið er í gangi og Crazy roller á svæðinu.
Hið árlega skíðagöngumót Ferðafélags Fljótamanna, Fljótamót, hefst kl. 13 við Ketilás. Skráning fer fram kl. 11:30-12:30. Að móti loknu verður veitingasala í Félagsheimilinu Ketilási.
Lestur Passíusálma í Sauðárkrókskirkju hófst kl. 10 í morgun. Passíusálmalestur hefst í Hvammstangakirkju kl. 12 í dag og eru það söngnemendur úr Tónlistarskóla Húnaþings vestra sem flytja söngatriði á milli lestra, kl. 12:30, 13:30, 14:30 og 15:30. Þá verður helgistund við krossinn í kirkjunni kl. 16. Guðþjónusta verður í Hóladómkirkju kl. 14, þar verður lesin Píslarsagan og passíusálmar. Guðþjónusta verður í Goðdalakirkju kl. 14 og einnig verður guðþjónusta í Mælifellskirkju kl. 14 og lesið úr Passíusálmunum þar kl. 14-17.
Í Víðidalstungukirkju verður föstuvaka kl 16:30, ræðumaður er Kristín Guðjónsdóttir. Píslarsagan verður lesin í Sauðárkrókskirkju kl. 17 og litanían sungin. Í Hólaneskirkju verður lágstemmd og falleg stund með lestri Passíusálma kl. 17. Hugrún Sif Hallgrímsdóttir leikur á orgelið. Þá verður guðþjónusta að kvöldi dags í Glaumbæjarkirkju kl. 20. Sigfús Pétursson og Þuríður Þorbergsdóttir syngja falleg lög og sálma. Í kvöld kl. 20 hefst lestur Passíusálma í Blönduóskirkju. Starfsfólk Húnavallaskóla les valda sálma og kirkjukórinn syngur á milli lestra.
Í kvöld verður svo opið á Microbar frá kl. 21 fram að lögbundinni lokun. Trúbbastemming með Svenna Þór verður á Mælifelli frá miðnætti til kl. 4 í nótt.
Sundlaugarnar á svæðinu eru opnar alla páskahelgina. Í dag er opið frá kl. 10 til 17:30 á Sauðárkróki, frá kl 12-17:30 á Hofsósi. Sundlaugin á Blönduósi er opin í dag frá kl. 10 til 16 og í Íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga er opið frá kl. 10-16. Lokað er í Varmahlíð og á Blönduósi í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.