Fossá í Austurdal brúuð
Ný brú sem þjóna á göngufólki yfir Fossá í Austurdal í Skagafirði var fyrir skömmu flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Keldudalsbrúnum og á sinn stað sem er um 12 km fyrir innan Hildarsel. Flutningurinn gekk vel eins og sagt var frá í síðasta blaði en um síðustu helgi var farið á staðinn og brúin fest rækilega. Guðmundur Stefán Sigurðsson var einn leiðangursmanna og fékk Feyki myndir til birtingar.
-Brúin er tilbúin, komin á stöplana og klár til notkunar. Þessi frágangsferð var farin laugardaginn 7. sept., farið frá Varmahlíð kl 6 að morgni og ekið fram í Laugarfell og þaðan eins langt og skynsamlegt þótti og slóðar dugðu og svo gengið eftir Fossármúla með verkfæri, tjakka og annað sem til þurfti til að smíða stöplana undir brúna og koma henni fyrir. Það tók milli fjóra og fimm tíma að komast að og frá staðnum og sjálf brúarvinnan eitthvað annað eins, við vorum svo komnir niður í Varmahlíð aftur milli 8 og 9 um kvöldið, segir Guðmundur.
Brúin hafði áður verið flutt með dráttarvél langleiðina að gangnamannakofanum í Keldudal sem er afdalur útúr Austurdal vestanverðum aðeins framar en gengt Hildarseli. Frá þeim stað er um 6km loftlína að brúarstæðinu og flutti þyrla landhelgisgæslunnar fyrst fjóra menn þaðan til að taka á móti brúnni og svo brúna sjálfa.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.