Folaldafille í aðalrétt
Þessa vikuna eru það Hörður Sigurjónsson og Petra Jörgensdóttir á Sauðárkróki sem gefa okkur dásemdar uppskriftir og hafa tómatsúpu í forrétt, folaldafille í aðalrétt og eftirrétturinn, frönsk súkkulaðikaka, fullkomnar máltíðina.
Forréttur
Tómatsúpa með rækjum
- Tóró Meksikansk tomatsuppe fra Guerrero.
- Ca ½ dl ferskjur.
- 1. peli rjómi
- Rækjur (eftir smekk)
Gerið súpuna eftir leiðbeiningum á pakka, en samt aðeins minna af vökva heldur en gefið er upp. Setjið rjómann út í og smátt saxaðar ferskjurnar, síðan eru rækjurnar settar útí í lokinn bara síðustu 2 mínúturnar. Gott er að bera fram með þessu spelt smábrauð frá Hatting.
Folaldafile með gráðostasveppasósu
- 6- 700 gr. folaldafíle.
- Cajun barbecue ( Pottagaldrar).
- 1 stk. laukur.
- 100-150 gr. sveppir.
- 1 matreiðslurjómi
- 2-3 msk.gráðostur
- 2-3 tsk. engifer
- 2-3 tsk. rifsberjagel.
- Salt og pipar.
Kryddið folaldavöðvann með cajun barbecue kryddi, setjið vöðvann í álpappír og inn í ofn í 30 mín. við 180°C. Gott er að láta vöðvann standa í álpappírnum á borðinu í 10 mín. Skerið laukinn og sveppina niður og steikið á pönnu, hellið síðan matreiðslurjómanum útí síðan er gráðosturinn, engifer og rifsberjagelið sett í. Salt og pipar eftir smekk. Sneiðið vöðvann niður í eldfast mót og hellið sósunni yfir og berið fram með kartöflum og fersku salati.
Frönsk súkkulaðikaka m/karamellukremi
- 2 dl. sykur.
- 200 gr. smjör.
- 200 gr. suðusúkkulaði.
- 1 dl. hveiti.
- 4 stk. egg.
Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita í potti. Blandið hveiti saman við eggin og sykurinn. Bætið í lokin bræddu súkkulaðinu og smjörinu varlega saman. Bakist í vel smurðu formi við 170 °C í 30 mín.
Karamellukrem
- 1 poki. Góu rjómakúlur.
- 1 dl. rjómi.
Rjómakúlurnar eru bræddar í rjómanum við vægan hita, látið kólna aðeins áður en því er hellt yfir kökuna. Gott er að hafa jarðaber og rjóma með kökunni.
Verði ykkur að góðu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.