Fjölmenni við opnun Ljósmyndavefs Skagafjarðar
Ljósmyndavefur Skagafjarðar var formlega opnaður í Bóknámshúsi Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sl. miðvikudagskvöld en við tilefnið var boðið upp á skemmtilega og í senn fróðlega dagskrá. Uppbygging ljósmyndavefsins er á vegum Héraðsskjalasafns Skagfirðinga, Söguseturs íslenska hestsins og Sveitarfélagsins Skagafjarðar.
Um hundrað manns voru viðstaddir opnunina og var það Örlygur Hálfdánarson bókaútgefandi sem bar heiðurinn af sjálfri opnuninni. Örlygur gaf til safnsins ljósmyndir Páls Jónssonar og hafði milligöngu fyrir gjöf safns Brunos Schweizer, sem afkomendur hans afhentu ljósmyndasafninu. Við opnunina gaf hann einnig bókina Dýraríki Íslands teiknuð af Benedikt Gröndal, en gestir kvöldsins rituðu svo nöfn sín í bókina að dagskrár lokinni.
Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar ræddi um ljósmyndavefinn og gildi hans fyrir sveitarfélagið, og Ísland allt.
Víkingur Gunnarsson, lektor og deildarstjóri hestafræðideildar Hólaskóla, ræddi um þýðingu vefsins fyrir Sögusetur Íslenska hestsins. Hann sýndi hvernig nota megi gamlar ljósmyndir til að skoða þróun ræktunar íslenska hestsins, breytingar ásetu í gegnum tíðina og jafnvel á reiðtygjum.
Hörður Geirsson frá Minjasafni Akureyrar fræddi viðstadda um upphaf ljósmyndunar á Íslandi og var frásögn hans afar myndræn, lífleg og skemmtileg. Hörður hefur verið að ljósmynda eftir fyrirmyndum gamalla ljósmynda sem teknar hafa verið víðs vegar um landið en til þess hann notar gamlar græjur sem hann hefur sankað að sér í gegnum tíðina.
Unnar Ingvarsson sýndi fyrstu ljósmyndirnar sem til eru af Skagafirði og safnið býr yfir. Hann sagði frá þeim ljósmyndurum sem störfuðu á svæðinu og sýndi hvernig ásýnd bæjarins tók breytingum rétt fyrir og eftir aldarmótin 1900. Jafnframt ljóstraði hann upp við hvaða aðferðir notast er til við að aldursgreina myndir.
Hér má skoða myndir frá kvöldinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.