Fjölmenni á hrútaþuklinu á Sauðfjársetrinu
Það var ljómandi góð stemmning á Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum sem fram fór á Sauðfjársetri á Ströndum um helgina. Tæplega 50 manns kepptust þar við að þukla hrúta í ljómandi góðu veðri, þar sem markmiðið keppninnar er að finna út gæðaröðina á gripunum og segja til um kosti þeirra og galla.
Þeir sem kepptu í flokki vanra hrútaþuklara gefa þeim stig fyrir margvíslega eiginleika og sérskipuð dómnefnd helstu hrútasérfræðinga landsins sér jafnan um dómgæsluna. Keppendur og fjölmargir áhorfendur komu víða að af landinu og höfðu gaman af þessari sérkennilegu skemmtun og á Kaffi kind var veglegt kaffihlaðborð að hætti Strandamanna á boðstólum.
Kristján Albertsson á Melum í Árneshreppi sigraði í hópi vanra og landaði því Íslandsmeistaratitlinum í hrútadómum í fjórða skiptið. Hæfileikar hans í þessari sérstæðu keppnisgrein hafa vakið mikla athygli. Í öðru sæti varð Úlfar Sveinsson á Ingveldarstöðum í Skagafirði og þriðji varð Björn Torfason á Melum í Árneshreppi, en Björn hefur tvisvar farið með sigur af hólmi í keppninni.
Í fyrsta sæti í flokki óvanra var Maríus Þorri Ólason sem ættaður er frá Hólmavík. Í öðru sæti var Andri Snær Björnsson frá Ytra-Hóli í Skagabyggð. Í þriðja sæti varð Gunnlaugur Þorsteinsson.
Vegleg verðlaun eru jafnan í boði og sigurvegarinn varðveitir í eitt ár farandgrip sem hagleiksmaðurinn Valgeir Benediktsson í Árneshi smíðaði úr hvalbeini og rekaviði. Hann gaf Búnaðarsamband Strandamanna til minningar um Brynjólf Sæmundsson sem var héraðsráðanautur á Strönum í áratugi. Fjöldi fyrirtækja gaf verðlaun í keppninni - Hótel Saga, Hótel Laugarhóll, SAH afurðir á Blönduósi, Sauðfjársæðingastöð Vesturlands, Bændablaðið, Ístex, Bændasamtök Íslands og Sauðfjársetur á Ströndum.
Myndasyrpa frá hrútaþuklinu á Sauðfjársetrinu, facebook.com/saudfjarsetur
.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.