Fjölmenni á fyrirlestrinum Sigrum streituna
Fyrsti viðburðurinn á vegum Heilsueflandi Samfélags í Skagafirði var haldinn í gær í Árskóla á Sauðárkróki og fór þátttaka fram úr björtustu vonum en fyrirlesturinn Sigrum streituna sem fjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason hélt var öllum opinn. Um 150 manns mættu en fyrirlesturinn er byggður á bókinni Á eigin skinni sem Sölvi sendi nýverið frá sér en þar fer hann yfir þær aðferðir sem hann hefur reynt til að ná betri heilsu.
Í frétt á Skagafjörður.is segir að verkefnið Heilsueflandi Samfélag - Skagafjörður hafi verið kynnt áður en fyrirlesturinn hófst og rætt um framgang verkefnisins. Við það tækifæri voru fulltrúar stýrihóps verkefnisins kynntir en hann skipa: Þorvaldur Gröndal, Sigfús Ólafur Guðmundsson, Elín Árdís Björnsdóttir, Kristján Bjarni Halldórsson, Karl Lúðvíkssons, Árni Stefánsson, Pálína Hildur Sigurðardóttir og Sigurlína Hrönn Einarsdóttir.
„Framundan er vinna í stefnumótun og kortlagningu á því sem er verið að gera í Skagafirði sem tengist Heilsueflandi samfélagi. Stýrihópurinn vill þakka kærlega fyrir frábærar móttökur á fyrsta viðburði verkefnisins,“ segir síðan í niðurlagi fréttarinnar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.