Fjögur stig á Krókinn eftir helgina
Það var nóg um að vera þessa fyrstu helgi ársins í körfuboltanum hjá Tindastól en það var Meistaraflokkur karla sem byrjaði gleðina og átti leik á Meistaravöllum föstudaginn 3. janúar á móti Tóta Túrbó og liðsfélögum hans í KR. Leikurinn byrjaði ekki sannfærandi hjá Stólunum og var hugurinn kominn á þá leið að KR-ingar væru að fara að hirða þessi tvö stig af okkur eins og í 1. umferðinni.
En Benni ætlaði greinilega ekki að láta strákana gefa þetta frá sér og tekur tvö leikhlé, með stuttu millibili, og herðir í hópnum og eftir það áttu KR-ingar ekki séns. Lokatölur 95-116 fyrir Stólunum og sitja þeir í 2. sæti deildarinnar með 18 stig. Næsti leikur er fimmtudag 9. janúar gegn ÍR í Síkinu.
Meistaraflokkur kvenna spilaði svo í Síkinu laugardaginn 4. janúar á móti Njarðvík. Fyrri leikur liðanna fór þannig að Stólastúlkur unnu og það var greinilegt að Njarðvík ætlaði sér sigur því leikurinn var æsispennandi frá byrjun til enda. Stólastúlkur byrjuðu aftur á móti leikinn mun betur en Njarðvík náði að saxa niður forskotið og þannig þróaðist leikurinn. Það var svo þegar aðeins ein mínúta var eftir af leiknum að Njarðvík náði að minnka muninn niður í þrjú stig en Stólastúlkur gáfust ekki upp og kláruðu leikinn. Lokatölur 79-69 fyrir Stólastúlkum sem sitja núna í 4. sæti með 16 stig. Næsti leikur hjá stelpunum er útileikur á morgun, 7. janúar, á móti Val.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.