Fiskmarkaður Sauðárkróks opnar húsakynni sín með móttöku

Á morgun, laugardaginn 15. apríl, verður nýtt og glæsilegt húsnæði Fiskmarkaðs Sauðárkróks tekið í notkun á Sandeyrinni á hafnarsvæðinu. Skagfirðingum og velunnurum annars staðar frá er boðið til móttöku í tilefni þessara ánægjulega tímamóta og hefst hún kl. 15:00 og stendur til kl. 17:00 þannig að Króksarar geta drifið sig í Síkið til að sjá leik Tindastóls og Keflavíkur.

Það er Fiskmarkaður Snæfellsbæjar sem á útibúið á Króknum sem rekið verður undir nafninu Fiskmarkaður Sauðárkróks. Því stýrir Guðmundur Björn Sigurðsson. Fiskmarkaður Snæfellsbæjar var stofnaður í Ólafsvík en hefur vaxið hratt á undanförnum árum en fyrirtækið selur einnig fisk frá Grundarfirði, Tálknafirði og Akranesi og nú bætist Krókurinn í flóruna.

Á heimasíðu Fiskmarkaðs Snæfellsbæjar segir: „Fiskmarkaður Snæfellsbæjar var stofnaður með einfalt markmið að leiðarljósi: Að brúa bilið á milli seljenda og kaupenda sjávarafurða, tryggja öruggt greiðsluflæði og hámarka verðmæti í krafti fagmennsku þar sem hvergi yrði slegið af ýtrustu gæðakröfum. Árleg milliganga okkar í viðskiptum nemur um 20.000 tonnum af sjávarfangi sem keypt eru og seld alla uppboðsdaga ársins í gegnum sölukerfið Fönix sem þróað er og rekið af NRS ehf.“

„Fyrir okkur er þetta stór áfangi og mikið gleðiefni,“ segir í auglýsingu frá Fiskmarkaði Sauðárkróks þar sem kemur fram að nú geti rekstraraðilar loks litið á sig sem heimamenn með varanlega búsetu á Króknum. Þeir vonast til að sjá sem flesta í móttökunni og fagna opnuninni með þeim á þessum tímamótum. Í boði verða veitingar frá Kaffi Króki og Sauðárkróksbakaríi og Eysteinn Ívar flytur notalega tónlist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir