FISK Seafood fjárfestir í bátum og aflaheimildum

Gunnari Bjarnasyni SH-122.MYND AÐSEND
Gunnari Bjarnasyni SH-122.MYND AÐSEND

Í vikunni var gengið frá samkomulagi Hraðfrystihúss Hellissands og FISK Seafood um kaup á dragnótabátnum Gunnari Bjarnasyni SH-122 sem gerður hefur verið út frá Ólafsvík. Skipið er 100 rúmlestir að stærð og 24 metrar á lengd, smíðað í Kína árið 2001. Gunnar Bjarnason mun leysa Hafdísi SK-4 af hólmi en engar aflaheimildir fylgja með í kaupunum. Umsamið kaupverð er eitt hundrað milljónir króna og verður skipið afhent í síðari hluta desembermánaðar nk. Samkomulagið er gert með fyrirvara um forkaupsrétt Snæfellsbæjar.

Nýlega festi FISK Seafood einnig kaup á línu- og netabátnum Hafborgu SK-54 og öðrum eignum og aflaheimildum Lundhöfða ehf. sem rekið hefur starfsemi sína á Sauðárkróki um árabil. Hafborg er trefjaplastbátur sem smíðaður var á Akureyri árið 1987, 11 metrar að lengd og tæplega 10 brúttórúmlestir að stærð. Kaupsamningurinn innifól einnig ríflega 60 þorskígildistonna aflaheimildir og fasteign Lundhöfða að Lágeyri 3 á Sauðárkróki.

FISK Seafood hefur um langa hríð kappkostað að auka við aflaheimildir sínar. Síðastliðið vor keypti félagið m.a. aflamark og aflahlutdeild í skarkola og langlúru af Ísfélagi Vestmannaeyja fyrir 185 milljónir króna. Í ársbyrjun keypti félagið einnig 32,5 þorskígildistonn sem skráð voru á Þuru AK-79 með heimahöfn á Akranesi og færðust þau yfir á Drangey SK-2. Jafnframt hefur dótturfélag FISK Seafood, Soffanías Cecilsson, fest kaup á 22ja tonna krókaaflahlutdeild og krókaaflamarki í þorski fyrir 140 milljónir króna.

Í framangreindum viðskiptum voru alls keypt tæplega 220 tonna þorskígildi og var samanlagt kaupverð þeirra tæplega 760 milljónir króna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir