Fín krapa æfing hjá Blöndufélögum

Ferð Björgunarfélagsins Blöndu  um síðustu helgi var í alla staði vel heppnuð þannig séð þótt ekki hefðu óreyndir bílstjórarnir komist mikið áleiðis, enda var þetta bara fín krapa æfing.
Töluverður fjöldi skráði sig í ferðina að þessu sinni, ca 35 manns á vegum Blöndu og ca 15 frá Póstinum á Blönduósi en þessir tveir hópar deildu með sér Áfangafelli um helgina og ferðuðust að nokkru leiti saman.  Lagt var af stað stundvíslega kl 8.00 á laugardagsmorgun og ferðinni heitið í Áfangafell þar sem ferðalangarnir héldu til um nóttina.
Farið var suður Kjalveg að afleggjaranum að Stórasandi þar sem sleðar voru teknir af kerrunni og haldið var vestur að Sandkúlufelli.  Færðin var frekar erfið fyrir óreynda bílstjóra Björgunarsveitarinnar en þeir busluðu nokkuð í krapapyttum og lækjarsprænum sem voru hulin snjó, allir höfðu þó gaman af og skemmtu sér vel þótt eknir kílómetrar hefðu mátt vera fleiri.  Töluvert betur gekk hjá bílstjórum Póstsins því þeir komust alla leið í Hveravelli en létu það duga.  Sleðarnir höfðu mun betra færi til að leika sér í en jepparnir og þeystu þeir fjalltoppana á milli, upp og niður alla ferðina á milli þess sem skipst var á að leyfa yngri kynslóðinni að viðra sig örlítið sem farþegar.  Sleðarnir kíktu örlítið upp á Langjökul en þar kom á móti þeim svartur skýjabakki með heilmikilli úrkomu en sem betur fer og þökk sé GPS tækjum að þá komust þeir heilir á húfi í Hveravelli.
 

Um kvöldið tók grillmeistarinn Gummi Ingþórs völdin og grillaði ljúffeng lambalæri frá SAH Afurðum og það verður að segjast eins og er að betri læri hafa sennilega aldrei verið grilluð fyrr, þau voru vægast sagt góð, vel krydduð og pökkuð.  SAH Afurðir fá mestar þakkir fyrir yndislegan kvöldverð.  Sama má segja um Samkaup sem styrktu máltíðina með gosi og meðlæti af bestu gerð, það gerir gæfumuninn að hafa svona góða aðila að.  Þegar ljúffengum kvöldverði var lokið var tekið í spil en eins og oft áður í svona ferðum tekur þreytan völdin og fólk fór að týnast smám saman til svefns.

 

 

 

Meðfylgjandi myndir tók Bjarni Freyr Björnsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir