Fimmtán ungir og efnilegir golfarar á Íslandsmóti golfklúbba 12 ára og yngri
Íslandsmót golfklúbba 2024 fyrir kylfinga 12 ára og yngri hófst í dag, föstudaginn 30. ágúst, og er lokadagurinn á sunnudaginn. Keppt er á þremur völlum, á Bakkakoti hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar, í Mýrinni hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar og á Sveinskoti hjá Golfklúbbnum Keili. Á ferðinni fyrir hönd GSS eru 15 ungir og efnilegir krakkar sem skipa þrjú lið í mismunandi styrkleikadeildum, tvær drengjasveitir og ein stúlknasveit.
Í fyrra fór ein sveit á þetta mót og sagði Feykir frá því þegar sú sveit, skipuð sex GSS drengjum, gerði sér lítið fyrir og vann sína deild og voru því deildarmeistarar í sínum styrkleikaflokki. Nú eru þeir mættir aftur til leiks nema í þetta sinn spila þeir í deild þeirra bestu. Það verður því gaman að fylgjast með þeim ásamt liðsfélögum þeirra í hinum sveitunum á þessu móti. Strákarnir í efstu deildinni hófu leik áðan á slaginu 9:20 við GKG og spila aftur seinna í dag við GK en hin liðin hefja leik í hádeginu.
Í Hvítu sveitinni eru þeir Brynjar, Gunnari, Kalli, Ólafur, Sigurbjörn og Víkingur.
Í Gulu sveitinni eru þeir Björn Henrý, Daníel Smári, Davíð Örn, Haukur og Orri Freyr
Í Bláu sveitinni eru þær Bergdís Birna, Fanndís Vala, Nína Júlía og Nína Morgan.
Á mótinu er leikið eftir PGA Junior League fyrirmyndinni, sem kallast PGA krakkagolf á Íslandi. Hver sveit skal skipuð að lágmarki fjórum leikmönnum og að hámarki sem leikmönnum. Leiknar eru 9 holur í hverri umferð með Texas Scramble höggleiks fyrirkomulagi, sem skiptast upp í þrjá þriggja holu leiki. Hver þriggja holu leikur gefur eitt flagg. Liðsstjóri ákveður tvo keppendur sem hefja leik og jafnframt raðar niður varamönnum ef einhverjir eru í liðinu. Hver keppandi verður að leika að minnsta kosti eitt flagg (3 holur). Hver viðureign tveggja klúbba gefur eitt stig því liði sem sigrar. Alls eru sex flögg í pottinum og það lið sem leikur á færri höggum samtals hvern þriggja holu leik vinnur það flagg. Það lið sem vinnur fleiri flögg samtals vinnur viðureignina og eitt stig. Ef lið leika þriggja holu leik á jafn mörgum höggum fær hvort lið hálft flagg. Ef lið skilja jöfn með 3 flögg fær hvort lið hálft stig.
Feykir óskar þeim öllum góðs gengis
Áfram GSS!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.