Fertugur í fullu fjöri
Lionsklúbburinn Bjarmi á Hvammstanga hélt upp á fertugsafmæli sitt þann 6. apríl sl. Klúbburinn var stofnaður þann 2. mars 1973 og er móðurklúbbur hans Lionsklúbbur Hólmavíkur. Á þessum 40 árum hefur klúbburinn haldið 625 bókaða fundi og alls hafa 109 félagar verið um lengri eða skemmri tíma í klúbbnum. Tveir stofnfélagar hafa verið samfellt í klúbbnum frá upphafi þeir Brynjólfur Sveinbergsson og Stefán Þórhallsson. Félagar í Lionsklúbbnum Bjarma eru nú 24 talsins.
Í tilefni af 40 ára afmælinu gaf Bjarmi út veglegt afmælisrit upp á 16 síður, myndskreytt og prentað í lit. Ritinu var dreift inn á hvert heimili í Húnaþingi vestra og víðar. Einnig má nálgast afmælisritið inn á vefnum lions.is á heimasvæði Lkl. Bjarma. Útgáfa ritsins var fjármögnuð með auglýsingum og einnig styrkti Menningarráð Norðurlands vestra útgáfu þess. Laugardaginn 6. apríl var opin sýning á ýmsum munum og myndum úr sögu klúbbsins. Aðgangur að sýningunni var ókeypis og gestum boðið upp á kaffi, öl og nýbakaðar kleinur.
Lokapunktur afmælishaldsins var síðan glæsileg afmælishátíð, þríréttaður hátíðarkvöldverður, sem haldin var í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Í veislunni voru auk nær allra félaga í Bjarma og maka þeirra margir fyrrverandi félagar í klúbbnum og aðrir gestir alls um 80 manns. Sérstakir boðsgestir á afmælishátíðinni voru Kristinn Kristjánsson fjölumdæmisstjóri og Þorkell Cýrusson varaumdæmisstjóri í 109 B og eiginkonur þeirra. Einnig voru mættir 2 félagar úr Lionsklúbbi Hólmavíkur og formaður Lionsklúbbsins Höfða á Hofsósi. Gestirnir ávörpuðu samkomuna og færðu Bjarmamönnum góðar gjafir sem við kunnum þeim alúðarþakkir fyrir. Fulltrúar safnaðanna í sveitarfélaginu veittu viðtöku styrk að upphæð 200 þúsund frá Lkl. Bjarma til barna- og æskulýðsstarfs kirknanna, en peningarnir voru afrakstur af sölu á blómum um páskana.
Félagar í Bjarma heiðruðu sérstaklega stofnfélagana þá Brynjólf Sveinbergsson og Stefán Þórhallsson með heiðursorðum frá klúbbnum fyrir áralöng vel unnin störf. Einnig sæmdi formaður Bjarma þá Einar H Esrason og Eggert Karlsson heiðursorðu formanns fyrir rúmlega tveggja áratuga farsælt lionsstarf. Veislustjóri var Magnús Magnússon formaður afmælisnefndar, stjórnaði hann hátíðinni af röggsemi og flutti ýmiss gamanmál. Brynjólfur Sveinbergsson og Guðmundur Haukur Sigurðsson fluttu brot úr sögu klúbbsins. Nokkrir yngri félaganna í Bjarma flutt skemmtiatriði sem gerður var góður rómur að m.a. brugðu þeir sér í gervi stjórnar klúbbsins og var mál manna að það hefði tekist einstaklega vel. Félagar í Lkl. Bjarma hafa lagt á sig mikla vinnu á undanförnum mánuðum við undirbúning og framkvæmd þessara viðburða og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir frábært sjálfboðaliðastarf.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.