Ferriol mættur á miðjuna hjá Stólunum
Knattspyrnudeild Tindastóls hefur samið við Spánverjann Manuel Ferriol Martínez um að leika með liðinu út komandi tímabil í 4. deildinni. Ferriol er miðjumaður að upplagi, 180 sm á hæð og 25 ára gamall, og getur leyst margar stöður á vellinum. Kappinn er kominn til landsins og mun líklegast taka þátt í leiknum á morgun þegar lið Tindastóll tekur á móti Magna í annarri umferð Mjólkurbikarsins.
Á síðu Tindastóls segir að Ferriol hafi verið hluti af Levante-akademíunni frá 2010 til 2016 en áður flutti síðan til Bandaríkjanna til að spila háskólafótbolta við James Madison háskólann í Harrisonburg, Virginíu.
Hjá James Madison lék Ferriol 64 leiki, skoraði 32 mörk og gaf 11 stoðsendingar. Þann 9. janúar 2020 var Ferriol valinn í MLS SuperDraftinu af FC Dallas.
Leikurinn í Mjólkurbikarnum átti að fara fram í kvöld en var frestað til laugardags og hefst á hádegi. Veðurspáin gerir ráð fyrir glampandi sól, þremur metrum af norðan og tveggja stiga frosti. Upplagt veður til að hlaupa sér til hita.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.