Ferðaþjónustan, ráðherra ferðamála og þingmenn NV funda á Blönduósi

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Markaðsstofa Norðurlands (MN) standa fyrir opnum fundi og bjóða þingmönnum Norðurlands vestra til samtals um uppbyggingu, ástand og horfur í ferðaþjónustu á svæðinu. Fundurinn fer fram þriðjudaginn 1. október á veitingastaðnum Teni, Húnabraut 4 á Blönduósi, og stendur á milli kl. 16 og 18. meðfylgjandi er hlekkur Skráning á fundinn!  SAF og MN hvetja leika og lærða til að fjölmenna á fundinn og taka þátt í umræðum um ferðaþjónustu í sínu nærsamfélagi.

Dagskráin hefst á ávarpi Lilju Daggar Alfreðsdóttur, ráðherra ferðamála, erindi á fundinum flytja þau Pétur Óskarsson, formaður SAF, fjallar um ferðaþjónustu á Íslandi heilt yfir og hvernig atvinnugreinin hefur þróast á Norðurlandi vestra og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri MN, fer yfir verkefni Markaðsstofunnar og uppbyggingu ferðamannastaða á svæðinu, tækifæri og áskoranir. Að þessu loku taka við pallborðsumræður sem þingmenn þriggja flokka á Norðurlandi vestra taka þátt í þeir Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins

Diljá Matthíasardóttir, hagfræðingur SAF, stýrir fundinum, Pétur og Arnheiður leiða pallborðsumræður og opið samtal að erindum þeirra loknum.

Fólk er hvatt til að mæta og hafða skoðun á því hvernig okkar þingmenn taka á málum tengdum ferðaþjónustu.

Feykir hafði samband við Pétur Óskarsson formann SAF í tilefni fundarins og bað hann að svara nokkrum spurningum þessu tengdu. 

Hvernig er staðan í ferðaþjónustumálum á Norðurlandi vestra? -Staðan í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra er að mörgu leyti spennandi. Hér er mjög sterkur grunnur í formi stórbrotinnar náttúru og menningararfs. En í dag er þetta svæði enn með köldustu svæðum landsins þegar litið er til fjölda ferðamanna sem sækja svæðið heim, þrátt fyrir að mikla uppbyggingu undanfarin ár. Hér eru starfandi verulega öflug ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa þróað vörur í takt við það sem svæðið hefur upp á að bjóða, má í því samhengi til dæmis nefna hrossaræktunarbúiðLýtingsstaði í Skagafirði sem selur sveitaheimsóknir og hestaferðir. Þá hafa sömuleiðis byggst upp veitingastaðir – eins og Teni á Blönduósi þar sem við munum hittast á þriðjudaginn – og gististaðir um allan landshlutann. Margir bændur bjóða hér uppá gistingu og svo eru að sjálfsögðu glæsileg hótel með mikla sérstöðu líkt og hótel Tindastóll á Sauðárkróki.

Á Norðurlandi vestra eru samt sem áður bæði fæstar gistinætur árið 2023 miðað við aðra landshluta landsins og minnsta hlutfallslega fjölgun þeirra síðastliðin tíu ár. Áskorun svæðisins liggur í að breyta þessu, auka hlutdeild svæðisins í ferðaþjónustunni á landsvísu, minnka árstíðarsveifluna og auka verðmætasköpun allt árið um kring.

Hvernig er hægt að efla ferðaþjónustuna á svæðinu? - Það er hægt að byggja upp frekari segla á svæðinu og tengja þá saman með svipuðum hætti og gert hefur verið með ferðamannaleiðinni Demantshringnum á Norðurlandi eystra. Það vantar ekki náttúruperlur hér vestan megin á norðurlandi, ég nefni bara Kálfshamarsvík, Hvítserk, Höfða Skagaströnd, Drangey, Kolugljúfur, Ketubjörg og svo óþekktari perlur eins og Ferðamannakletta og Jökulsárgljúfur við Jökulsá vestari þar sem hægt væri með réttum innviðum að búa til nýjan stórfenglegan segul. Lykilorðið í eflingu ferðaþjónustunnar hvar sem er á landinu er auðvitað samtal og samstarf aðila á svæðinu. Ferðaþjónustufyrirtækin og sveitarfélögin í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands gætu farið í þróun á slíkri ferðamannaleið. Fyrirtækin á svæðinu hafa nú þegar farið í mikla vöruþróun og mikilvægt að ný ferðamannaleið myndi taka tillit til þessa. Þegar aðilar á svæðinu eru sammála um hvert skal halda og róa í sömu átt gerast hlutirnir. Nú svo má nefna að leita má til framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sem hefur og getur hjálpað til við að byggja upp áfangastaði við náttúruperlur á svæðinu. Ekki má svo gleyma mikilvægi þess að fá innanlandsferðaskrifstofurnar með í þennan leiðangur. Þær ráða mjög miklu um það hvar er stoppað og hvað er gert bæði í skipulögðum hópferðum og einstaklingsferðum um landið.

Hvaða möguleikar eru á NV? - Oft hefur það verið nefnt að Holtavörðuheiðin hefur síðustu ár ekki verið mikið oftar lokuð en Hellisheiðin. Í því liggja tækifæri en að sjálfsögðu eru hér margir möguleikar sem byggja á því að vegakerfið verði bætt. Það er til dæmis ekki í lagi að Vatnsnesvegurinn - vegurinn að einni stærstu náttúruperlu svæðisins og landsins – sé jafn lélegur og raun ber vitni og það á við um fleiri staði á svæðinu. Á norðvesturlandi eru eins og líklega flestir lesendur Feykis þekkja frábærar reiðleiðir og margir hestamenn sem ferðast langt að til að heimsækja landshlutann og njóta náttúrunnar hér, eins og sjá má á aðsókn fólks að Laufskálaréttunum nú um helgina. Sömuleiðis er náttúrulega mikið af veiði, hvort sem um er að ræða í ám eða vötnum, á svæðinu – þetta eru dæmi um afþreyingu sem hægt væri að nýta betur og þróa áfram fyrir ferðamenn. Hér er með samstilltum aðgerðum hægt að fjölga þeim sem hingað koma og þeim sem stoppa hér og gista á svæðinu. Þannig má nýta fjárfestingar í greininni betur og jafna árstíðasveifluna. Ferðaþjónustan getur skilað hingað mun meiri hagsæld en hún gerir í dag. Fyrir utan tekjur fyrirtækjanna af greininni eykst með aukinni ferðaþjónustu þjónustuframboð á mörgum sviðum s.s. í veitingabransa og í annari þjónustu við þjóðveginn sem íbúar svæðisins njóta líka góðs af.

Hverjar eru helstu áskoranirnar sem ferðaþjónustan stendur fyrir á NV? - Það má því segja að úrbætur á Vegakerfinu séu ein af stóru áskorunum sem ferðaþjónustan á NV stendur fyrir. Samhliða því að vegakerfið batni þarf að vera öflugt samtal og samvinna allra hagaðila á svæðinu um það hvert skal halda. Önnur stór áskorun er að fjölga gestum og lengja dvalartíma þeirra sem hingað koma. Huga þarf að aukinni afþreyingu á svæðinu, tækifærin til þess að stofna fyrirtæki um aukna afþreyingu gætu legið víða. Þar er ekki endilega gefið hvað kemur á undan, hænan eða eggið. Góð afþreying og spennandi áfangstaðir lengja dvalartímann á svæðinu sem kallar á aukið gistirými. Þetta þarf að byggjast upp samhliða og því segi ég aftur, samtal og samvinna er lykilinn að hagfeldri þróun ferðaþjónustunnar á svæðinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir