Ferðaþjónusta í Skagafirði
Hvað veldur því að við fáum ekki enn fleiri ferðamenn í Skagafjörð þrátt fyrir allar náttúruperlurnar sem við höfum, fjölbreytta útivistarmöguleika og marga áhugaverða staði sem hægt er að heimsækja og skoða?
Ástæðan er fyrst og fremst sú að við getum ekki tekið á móti stórum ferðamannahópum í gistingu allt árið um kring. En hvað er til ráða?
Það verður að hefja vinnu við að skipuleggja byggingu á stóru ráðstefnuhóteli og finna áhugasama fjárfesta til að vinna að verkefninu.
Finna þarf fyrirhuguðu hóteli stað í samvinnu við íbúa og fjárfesta. Þeir staðir sem helst hafa verið nefndir eru Flæðarnar, og þá hugsanlega með tengingu við fyrirhugað menningarhús, Nafirnar eða svæðið norðast í bænum á móts við smábátahöfnina. Alla þessa kosti og kannski fleiri þarf að skoða vel.
Með því að fara í þessa framkvæmd þá aukum við tækifæri á að efla ferðaþjónustu almennt, fáum meiri fjölbreytileika í atvinnulífið og eflum lífsgæði íbúa á svæðinu.
Með tilkomu stórs hótels verður til sterkari grundvöllur fyrir að taka á móti stærri hópum fólks, hvort sem um er að ræða ráðstefnuhópa, hvataferðir, árshátíðarhópa eða aðrar fjölmennar samkomur. Sem dæmi styður stórt hótel vel við stóra viðburði og samkomur eins og golfmót, hestaferðir, skíðaferðir eða -mót og jafnvel gæfust tækifæri til að fá beint leiguflug á Alexandersflugvöll með hópa í svona ferðir.
Það er mikil eftirspurn eftir gistingu í tengslum við ráðstefnur, árshátíðir og fleiri stórar samkomur en eins og staðan er í dag þá erum við að missa þessa hópa frá okkur.
Þetta er bara eitt af fjölmörgum málum sem við hjá Framsókn munum beita okkur fyrir á næsta kjörtímabili fáum við brautargengi til þess.
Nú er kominn tími fyrir okkur Skagfirðinga að stimpla okkur enn betur inn í ferðamannaiðnaðinn og um leið auka hagsæld okkar allra sem búum í héraðinu. Til að það geti orðið að veruleika þurfum við hjá Framsókn á ykkar stuðningi að halda á kjördag. Setjið X við B og sýnið með því að þið veljið traust og áreiðanlegt fólk til að vinna fyrir ykkur.
Ég mun hér eftir sem hingað til leggja mig allan fram við að leysa þau verkefni sem verða lögð fyrir mig eins vel og unnt er og í sem mestri samvinnu við þig, kjósandi góður.
Er ekki best að hafa áhrif? Setjum X við B
Sigurður B. Rafnsson
skipar 4. sæti á lista Framsóknar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.