Ferðamálafélag Vestur Húnavatnssýslu fékk styrk vegna "Stangveiðistaðar með aðgengi fyrir alla"
26 verkefni á Norðurlandi hlutu styrki til úrbóta á ferðamannastöðum sem Ferðamálastofa úthlutaði nýlega. Alls bárust 213 umsóknir um styrki sem er 40% aukning milli ára. Til úthlutunar voru 56 milljónir króna og 108 verkefni hlutu styrki. Hæstu styrkirnir á Norðurlandi uppá eina miljón króna komu í hlut Blöndu ehf. í gerð göngustígs til að tengja saman Brautarhvamm og Fagrahvamm, Ferðamálafélags Vestur Húnavatnssýslu vegna verkefnisins stangveiðistaður með aðgengi fyrir alla og Skútustaðahrepps vegna útivistarsvæðis og þjónustuhúss í Dimmuborgum.
Fasteignafélagið Fosshóll fékk 600 þúsund krónur til að bæta snyrtiaðstöðu við Goðafoss og fimm hundruð þúsund krónur fengu Dalvíkurbyggð vegna fuglaskoðunarhúss í friðlandi Svarfdæla, Ferðamálafélag Fnjóskadals vegna snyrtingar við Heiðarhús á Flateyjardalsheiði, Fjallabyggð, Dalvík og Skagafjörður vegna útivistarleiða á Tröllaskaga, Fuglasafn Sigurgeirs vegna fuglaskoðunarhúss í Mývatnssveit, Landeigendur Reykjahlíðar vegna göngustíga -og pallagerðar við Leirhnjúk, Selasetur Íslands vegna verkefnisins Hið villta norður, Sveitarfélagið Norðurþing vegna verkefnisins Melrakkaslétta: upplýsingar og upplifun, ferðamálafélagið Súlan vegna fuglastígagerðar á Langanesi og Þórarinn Þórarinsson vegna verkefnisins Fundahúsið við Víkingavatn. Önnur norðlensk verkefni hlutu styrki á bilinu 200 - 400 þúsund krónur.
Heimild: Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.